Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir ekki sé vitað hvort kórónuveirusmitin sem greinst hafa meðal þingmanna hafi smitast milli manna innan Alþingishússins. Hann bendir á að þingmenn sitji með töluverða fjarlægð sín á milli, noti grímur þegar þarf, fari reglulega í hraðpróf og sinni persónulegum smitvörnum. Hann segir þingið ekki heilagt gegn veirusmitum.
Er grunur um að þessi sem eru smituð hafi smitast af hver öðrum hér innanhúss?
„Ég hef engar upplýsingar um það og í raun og veru engar forsendur til þess að meta það. Manni dettur það í hug en hins vegar er ekkert staðfest um það“ segir Birgir.
Væri það ekki áfellisdómur yfir sóttvörnum hér innanhúss?
„ja, það er nú þannig að við höfum reynt að halda hlutunum þannig hérna að það væri ákveðin fjarlægð milli fólks þegar það situr í sætum sínum í þingsal. Við höfum reynt að skipuleggja nefndarfundi þannig að fólk gæti verið gisnara heldur en er á venjulegum degi hjá okkur. Svo hefur verið grímunotkun og spritt og þess háttar en ég held að þó Alþingi sé í ýmsum skilningi friðheilagt að þá er það ekki friðheilagt gagnvart veirusmitum“ segir Birgir.