„Mér leiðist aldrei, ég þrífst mjög vel uppi á fjöllum. Ég veit að þetta á eftir að líða mjög hratt en ég á aldrei eftir að gleyma þessum tíma hérna,“ segir Ásgerður Einarsdóttir, skálavörður í Laugafelli.

Laugafell er í um 740 metra hæð yfir sjávarmáli norðaustur af Hofsjökli. Þetta er sannkölluð vin í eyðimörkinni og vinsæll áningarstaður ferðamanna. Ferðafélag Akureyrar rekur skála í Laugafelli og það er hlutverk Ásgerðar, eða Addýjar eins og hún er kölluð, að halda honum hreinum, taka á móti ferðamönnum og veita þeim upplýsingar. 
„Ég spyr fólk alltaf hvaðan það sé að koma og fæ þá nýjustu fréttir af ánum og vegunum og get þá leiðbeint fólki," segir Addý. 

Laugin, sem Laugafell er kennt við, er helsta aðdráttaraflið. Þangað flykkjast ferðamenn á sumrin og njóta þess að láta líða úr sér í heitu vatninu. „Þegar fólk kemur er það yfirleitt í góðu skapi, en ef það er ekki í góðu skapi þá er það svo sannarlega orðið glatt þegar það fer héðan því þetta er svo dásamlegur staður,“ segir Ásgerður Einarsdóttir, skálavörður í Laugafelli. 

Landinn leit við í Laugafelli í sumar.