Grænlenska fiskiskipið Masilik strandaði úti fyrir Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd í kvöld. Freyja, varðskip Landhelgisgæslunnar, og dráttarbáturinn Hamar voru send á vettvang til aðstoðar skipinu og áhöfn þess. Björgunarsveitin í Vogum var kölluð út um klukkan hálf níu til að fylgjast með úr landi. Eins og sjá má á myndskeiði sem fylgir fréttinni hallar skipið nokkuð.

Jóhann Ingimar Hannesson sem er á Vatnsleysustrandarvegi segir að skipið virðist snúa skutnum upp í land og stefninu út. Einn sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við sagðist fyrst hafa orðið var við skipið þegar það lýsti upp stofuna hjá sér. Þá hefði honum þótt það komið ansi nálægt landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni barst tilkynning um strandið klukkan sjö í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn til að kanna aðstæður á strandstað. Veðuraðstæður eru ágætar og aflandsvindur. Umhverfisstofnun og lögreglu hefur verið gert viðvart.

Nítján manns eru í grænlenska skipinu sem var á leið til hafnar í Hafnarfirði.

Varðskipið Freyja var að ljúka við að draga fiskiskipið Janus inn í Hafnarfjarðarhöfn þegar tilkynningin um strandið barst. Áhöfnin var því fljót að koma sér af stað áleiðis að grænlenska skipinu á strandstað.

21:16 Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum. Upphaflega sagði ranglega að grænlenska skipið væri togari.