„Við erum að bjóða fólki að koma með ýmsa muni eða tæki sem eru bilaðir eða brotnir og við erum að finna út úr því í sameiningu með fólki og góðum sjálfboðaliðum hvort það sé hægt að koma hlutunum í lag aftur,“ segir Þórarinn Bjartur Breiðfjörð, forstöðumaður Fab Lab á Ísafirði. Reddingakaffið er haldið í samstarfi við Munasafn Reykjavíkur, RVK Tool library.

Mikill munur á raftækjum dagsins í dag og þeirra sem voru framleidd áður fyrr - nú er varla ætlast til að þau séu löguð. „Við erum búin að hafa töluvert mikið fyrir því að búa til öll þessi raftæki og alla þessa hluti svo það er alveg galið að fara að farga þeim við fyrstu bilun,“ segir Þórarinn. 

Og það er ekki bara verið að redda hlutum heldur líka skapa tóm til að setjast niður með kaffi og ræða málin. „Það eru hlutir sem við getum gert sem eru ekki endilega tæknilegir og eru meira bara félagaslegir sem munu hafa áhrif á loftslagsbreytingar sem okkur er mjög annt um þessa stundina.

Innan stundar er dúkkan Æ. Æ orðin næstum eins og ný og gamlar hljómflutningsgræjur verið krufnar. 

„Svona tæki er hægt að gera við, maður opnar þau og finnur það sem er að og lagar það,“ segir Kári Harðarson, sjálfboðaliði í reddingakaffinu.