Fyrirsjáanleiki og sveigjanleiki eru mikilvægir þættir í því að tryggja farsælt jólahald eftir skilnað. Þetta kom fram í máli Valgerðar Halldórsdóttur félagsráðgjafa í Kastljósi í kvöld. Þar var rætt um hvaða áskoranir geta tengst jólahaldi eftir skilnað foreldra og hvernig væri hægt að tryggja að börnum, foreldrum og stjúpforeldrum líði sem best. „Börnin eru ekki að telja klukkustundir eða endilega daga. Þau meta samskipti,“ sagði Valgerður.
Valgerður sagði að það hversu langt er liðið frá skilnaði og hversu fyrirsjáanlegar hátíðarnar eru geti ráðið miklu um líðanina hjá börnum fráskilinna foreldra. Hún sagði að jólakvíði sem börn upplifðu eftir skilnað gæti jafnvel fylgt þeim fram á fullorðinsár.
Meðal vandamála er þegar fólk gerir ekki ráð fyrir breytingum, heldur að allt verði eins þótt svo hjónabandið hafi ekki gengið upp, sagði Valgerður. Fólk getur svo komið með ólíkar hefðir inn í ný sambönd. Þá er mikilvægt að misbeita ekki hefðum, til dæmis þannig að einhver beygi sig alfarið undir hefðir þess sem hefur sterkust fjölskyldutengsl. Þá geti börnum þótt þau verða útundan ef þau passa ekki inn í hefðirnar í nýju fjölskyldumynstri. Valgerður sagði að fólk þyrfti ekki að finna upp nýjar hefðir heldur gæti verið best að blanda saman þeim hefðum sem fólk kemur með hvert úr sinni átt. Fólk verður að vera hugmyndaríkt og hugsa út fyrir rammann. „Það má gera þetta á alla vegu.“
Valgerður lagði áherslu á sveigjanleika. Fólk verði að vera viðbúið því að sömu hefðir henta ekki öllum. Hún spurði hvernig fólk ætlaði að bregðast við ef það væri með fastar hefðir og einhver aðlagaði sig ekki þeim hefðum: „Eru þá jólin ónýt?“ spurði Valgerður og svaraði neitandi. „Þú aðlagar þig breytingum.“
Hún sagði að foreldrar og stjúpforeldrar yrðu líka að taka tillit til þess að börnin gætu verið með sínar eigin áætlanir fyrir jólin. Stundum þyrftu þau líka hvíld .