Stjarnan komst í kvöld áfram í 16-liða úrslit Coca cola bikarkeppni karla eftir sigur á Aftureldingu í tvíframlengdum leik. Úrslitin urðu 36-35 fyrir Stjörnuna.
Eins og í deildinni um daginn var jafnræði á með liðunum í upphafi leiks, þótt Stjarnan væri jafnan á undan að skora. Stjarnan varð fyrir áfalli á 17. mínútu þegar Tandri Már Konráðsson fékk að líta beint rautt spjald hjá dómurum leiksins og var sendur í bað. Skömmu síðar komst Afturelding yfir í fyrsta sinn í leiknum. Næstu mínútur var Afturelding með forystuna og eftir líflegar lokasekúndur í fyrri hálfleik munaði einu marki.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn svo mun betur og eftir fimm mínútur voru heimamenn komnir tveimur mörkum yfir. Afturelding jafnaði fljótlega en aftur komst Stjarnan tveimur mörkum yfir. Þá komu þrjú mörk í röð frá Mosfellingum og þeir náðu aftur forystunni. Það stóð þó stutt og næstu mínútur var jafnt á flestum tölum en Stjarnan á undan að skora. Þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir komst Stjarnan svo þremur mörkum yfir og staða Aftureldingar þrengdist. Afturelding lagði þó ekki árar í bát og minnkaði muninn í eitt mark á lokamínútunni og þeir áttu svo lokasóknina og skoruðu þar og tryggðu sér framlengingu.
Sömu sveiflur voru svo í framlengingunni. Liðin skiptust á að vera yfir og aftur var jafnt í lokasókninni. Að þessu sinni náði Afturelding þó ekki að tryggja sér sigurinn og við tók önnur framlenging. Það kom fáum á óvart að sama spennan hélt áfram þar. Stjarnan komst í 36-35 en enn og aftur átti Afturelding lokasóknina. Í henni brást Blæ Hinrikssyni hins vegar bogalistin og Stjarnan fagnaði því eins marks sigri.