Íslensk samtímalist er í fyrirrúmi á sýningunni Abrakadabra sem nú stendur yfir á Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Framsetning, miðun og fræðsla miðar að því að opna töfraheim myndlistar eins og hann blasir við í dag fyrir yngra fólki.
Samhliða Abrakadabra er sett fram ríkuleg dagskrá ásamt miðlun á stafrænu formi. „Abrakadabra“ er tökuorð úr fornum tungumálum og merkir „Það sem ég segi verður að veruleika“. Þetta er töfraorð sem lýsir því hvernig hugmyndir myndlistarmanna verða að listaverkum.
Í safneign Listasafns Reykjavíkur er mikill fjöldi listaverka varðveittur, þar eru um sautján þúsund skráð verk og skissur af ýmsum toga. Við innkaup listaverka í safnið á sér stað val sem endurspeglar fjölbreytileika listsköpunar hverju sinni. Á sýningunni Abrakadabra er stefnt að því að miðla áherslum sem er að finna í deiglu samtímans til unga fólksins.
Fjallað var um sýninguna Abrakadabra í Hafnarhúsinu í Húllumhæ, hægt er að sjá innslagið í spilaranum hér að ofan. Sýningin stendur frá 30. okt 2021 til 20. mars 2022.