Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, stefnir á að hægt verði að klára að afgreiða fjárlög næsta árs í fyrri part vikunnar milli jóla og nýárs. Hún segir að nefndin geti hins vegar ekki tekið á móti öllum þeim gestum sem senda inn umsögn um frumvarpið.

„Við kláruðum í síðustu viku, nefndin, að hitta ráðuneytin og Alþingi til þess að fara yfir þeirra útskýringar á frumvarpinu. Núna í dag erum við að hefja samtalið við hagaðilana, þessa stærstu. Við ætlum að fá á fund til okkar ASÍ og SA þennan morguninn. Svo höldum við því áfram þessa vikuna, en bara tímans vegna þá auðvitað getum við ekki tekið á móti öllum þeim gestum sem senda okkur umsagnir,“ sagði Bjarkey Olsen á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun.

Fordæmi eru fyrir því að fjárlagafrumvarpið hafi verið ekki samþykkt fyrr en í byrjun janúar, en Bjarkey telur ekki þörf á að grípa til þess í ár.

„Við þurfum að vanda okkur en um leið þá held ég að við getum náð þessu milli jóla og nýárs. Ég hef verið opin og sagt það frá upphafi að við eigum ekki að sprengja okkur að klára þetta fyrir jólin. Það dugir að klára milli jóla og nýárs. En auðvitað skiptir máli fyrir stofnanirnar að því nær áramótunum sem er, þá verður það pínulítið þyngra. Þannig ég vona að svona fyrri part þeirrar viku náum við að klára,“ sagði Bjarkey Olsen, en allt viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan.