Sorgin er að verða meira og meira sjúkdómsvædd að mati Björns Hjálmarssonar, geðlæknis á barna- og unglingageðdeild Landspítala. Rúmlega 11 prósent stúlkna á aldrinum 12 til 17 ára hafa fengið uppáskrifuð þunglyndis- eða kvíðalyf á árinu samkvæmt Landlækni, og hafa þær aldrei verið fleiri. Línuleg aukning hefur orðið á notkun þessarra lyfja allt frá árinu 1998 að sögn Björns.

Björn telur að rekja megi þessa auknu lyfjanotkun til margra þátta. Stafræna byltingin geti verið stúlkum mjög krefjandi, auk þess sem hann telur nokkrar byltingar hafa rænt unglinga bernskunni. Fyrstu byltinguna megi rekja til miðrar síðustu aldar þegar þriggja kynslóða sambúð undir sama þaki byrjaði að líða undir lok. „Afi og amma gátu hlaupið undir bagga þegar foreldrunum fataðist flugið í uppeldinu,“ segir Björn og bætir því við að heimilisofbeldi hafi aukist í kórónuveirukrísunni.

Gengur illa að trappa lyfin út

Næstu byltingu segir hann hafa verið hina stórkostlegu kvenfrelsisbaráttu kvenna. Hún hafi gert það að verkum að atvinnuþátttaka kvenna er orðin sú sama og karla, og sú þróun hafi gert það að verkum að börning sitji óbætt frá garði. „Þau misstu mömmurnar út af heimilunum en við feðurnir komum ekki inn í staðinn. Ég held að þetta sé svolítið að trufla börnin okkar,“ segir Björn.

Björn segir lyfjanotkun hér óvenju mikla, og það vanti upp á samtalið í læknasamfélaginu. „Oftast þegar maður setur unglingsstúlkur á þessi lyf er maður að miða við meðferð í hálft ár til eitt ár og svo vill maður trappa lyfin út og sjá til,“ segir hann. Hann grunar að læknar séu ekki nógu duglegir við að trappa lyfin út þegar þeim er farið að líða betur. „Við hjá BUGL erum að að meðhöndla börnin þegar þau eru sem veikust og síðan fara þau í eftirfylgd hjá heimilislæknum. Við þurfum að eiga samtalið við heimilislækna hvernig við berum okkur að við að trappa þessi lyf út svo fólk gleymist ekki á þeim,“ segir hann.

Skortur á trúrækni hluti af vandanum

Aðspurður um hvers vegna staðan sé svona hér á landi, hvort læknar hér séu bara svona ávísanaglaðir, segir Björn að þetta megi að hluta rekja til þess að trúrækni þjóðarinnar fari minnkandi. „Sorgin er að verða meira og meira sjúkdómsvædd. Þeir sem eru sanntrúaðir, þeir geta sótt svo mikinn mátt í trúna. Trúarheimspeki, það að geta sótt styrk í æðri mátt, trúin á hið góða, hið fagra og hið fullkomna er mjög góður styrkur,“ segir Björn.

„Ef við lítum á þjóðararfinn, þá er svo mikil viska í trúnni. Menn þurfa ekkert endilega að trúa á æðri mátt,“ segir Björn. Hann tali ekkert endilega fyrir kristni, heldur þeirri fegurð sem hann sjái í öllum æðstu trúarbrögðum mannkyns. „Ég sé það hjá mínum skjólstæðingum á BUGL, það er svo hræðilega algengt að stúlkur komi í djúpri vanlíðan og óski eftir lyfjameðferð eða það er valið að gefa þeim lyf. Það er eins og allar sorgir þeirra í lífinu séu enn óunnar,“ segir Björn . Hraðinn og spennan í þjóðfélaginu sé orðin svo mikil að einstaklingar nái ekki að vinna úr sorgum sínum þar til þeim sé farið að líða svo illa að þeir séu komnir inn á skrifstofur lækna og óska eftir lyfjum.