„Við erum ekki sáttir við hvernig staðið er að þessu,“ segir Arthúr Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda um drónaeftirlit Fiskistofu með brottkasti. Hann segir eftirlitið vera njósnir samkvæmt lýsingum á vefsíðu Persónuverndar.

„Ef þetta á að leyfast, þá þarf að standa að því samkvæmt reglum um ómönnuð loftför í þessum tilgangi,“ segir Arthúr í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Ef tilgangur Fiskistofu sé að nota eftirlit sem fælingarmátt, þá sýni rannsóknir að fælingarmáttur eftirlits felist í því að greina frá því að eftirlit sé í gangi. Láta eigi vita að eftirlitið fari fram á ákveðnu svæði á ákveðnum tíma, „ekki læðast aftan að mönnum og tilkynna þeim eftir á að þeir hafi verið staðnir að verki,“ segir Arthúr.

Þá segir Arthúr að gæta þurfi jafnræðis í eftirliti með brottkasti. Eftirlit sé ekki óhóflega mikið með smábátum, en einnig þurfi að fylgjast með togurunum. Af 315 eftirlitsflugum með drónum hafi aðeins átta sinnum verið flogið yfir togaraflotann. Hann segist hafa aflað upplýsinga frá Fiskistofu um hvort eftirliti ætti fyrst og fremst að vera beint gegn smábátaflotanum. Hann fékk þau svör að einnig yrði fylgst með stóru bátunum, en þótti útskýringar á því hvernig það ætti að fara fram ekki sannfærandi. 

Eftirlitsmyndavélar eru við allar hafnir landsins. Fiskistofa hefur hins vegar ekki leyfi til þess að vakta þær vélar. Arthúr segir SFS ítrekað hafa hafnað því að Fiskistofa fái leyfi til þess að skoða efni úr þeim vélum, til dæmis með umsögnum við frumvörp þess efnis.

Arthúr segist vera grjótharður á móti öllu brottkasti. „Samtök smábátaeigenda hafa vakið athygli á þessu vandamáli. Við viljum að það sé alvöru átak gegn þessu,“ sagði Arthúr í Morgunútvarpinu.