Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, stefnir á fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Hildur skipaði annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þá leiddi Eyþór Arnalds listann og hefur hann gefið út að hann gefi kost á sér til þess áfram. Því er útlit fyrir prófkjörsslag um oddvitasætið hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavík.
Hildur tilkynnti um framboð sitt á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hún var í viðtali á Stöð 2 og var í viðtali í Kastljósi í kvöld þar sem hún áréttaði þessa fyrirætlan sína.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var einnig gestur í Kastljósi þar sem þau Hildur tókust á um skuldastöðu og fjármál borgarinnar, málefni leikskóla, starfsmannamál og annað fleira það sem við kemur rekstri borgarinnar.
Hildur segist í framboðstilkynningu vilja skapa höfuðborg sem setji fjölskyldur í forgang með skóla sem mæti fjölbreyttum þörfum og leikskóla sem tryggi inngöngu strax í kjölfar fæðingarorlofs.
Þá vill hún laða að borginni hæfileikafólk með úrvali atvinnutækifæra, lifandi menningu, spennandi búsetukostum og greiðum samgöngum fyrir alla.
Fréttin var uppfærð klukkan 20:54.