Forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands segist ekki vilja dæma um hvernig KSÍ hafi tekist til þegar upp hafa komið ásakanir um kynferðisbrot leikmanna. Fram kom í skýrslu úttektarnefndarinnar að KSÍ hefði haft vitneskju um fjögur mál er lúta að leikmönnum og starfsmönnum á ellefu ára tímabili. Lárus segir jákvætt að málin séu ekki fleiri.
Úttektarnefndin birti skýrslu sína í gær þar sem kemur fram að þáverandi formaður KSÍ hafi veitt fjölmiðlum og almenningi villandi upplýsingar í ágúst þegar hann fullyrti í viðtali í Kastljósi að sambandinu hefði ekki borist kvörtun eða ábending um kynferðisbrot landsliðsmanna.
Í skýrslunni eru m.a. rakin viðbrögð KSÍ við því þegar ábending barst um lögregla hefði verið kölluð til vegna heimilisofbeldis á heimili landsliðsmanns árið 2016. Þar segir að Magnús Gylfason, sem sat í landsliðsnefnd, hafi fullyrt við úttektarnefndina og svo staðfest þá frásögn í tölvupósti til nefndarinnar, að hann hafi hitt landsliðsmanninn og eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að atvikið.
Eiginkona landsliðsmannsins hafði samband við úttektarnefndina og sagði rangt að hún hefði hitt Magnús á kaffihúsi daginn eftir atvikið. Í dag breytti úttektarnefndin skýrslunni í kjölfarið. Magnús hringdi í konuna síðdegis í dag til að biðja hana afsökunar á að hafa farið með rangt mál í viðtali við nefndina. Þá hefur hann jafnframt beðið formann úttektarnefndarinnar afsökunar.
Geir Þorsteinsson, sem var formaður KSÍ á þessum tíma, vildi ekki veita fréttastofu sjónvarpsviðtal . Hann segist ekki hafa haft vitneskju um kaffihúsaferðasögu Magnúsar. Geir fullyrðir að hann hafi ekki reynt að þagga málið niður þó svo að hann hafi haft samband við almannatengil.
KSÍ er eitt af aðildarfélögum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, sem lét gera skýrslurnar. Forseti þess fagnar því að í skýrsluhöfundar telji ekki efni til að fullyrða að framganga stjórnenda KSÍ einkennist af þöggunar- eða nauðgunarmenningu umfram það sem gerist í íslensku samfélagi. Skýrslan nýtist við að ákveða verklag í ofbeldismálum.
Hvernig finnst þér KSÍ hafa tekist til í þessum málum á þessu ellefu ára tímabili?
„Ja, við getum alla vega sagt að þetta eru ekki nema fjögur mál sem koma upp á þessu árabili, sem eru 11 ár. Þar af eru tveir sem eru aðilar utan KSÍ, aðilar sem eru að vinna fyrir KSÍ, og eru látnir hætta um leið og það kemur upp. Síðan eru þessi tvö mál sem eru í umræðunni hér. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að málið frá 2017 að það hafi verið tekið á því af hálfu KSÍ en hins vegar málið sem kom upp í júní, að það var ekki komið í ferli þegar þessir atburðir gerðust í lok ágúst,“ segir Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ.
Hvernig finnst þér þá KSÍ hafa tekist til?
„Ja, það er auðvitað þannig... ég ætla ekki að dæma um það svo sem hvort og í hvaða ferli það hefði verið hægt að setja það mál, en það hefði verið rétt að upplýsa um að það hefði komið fram,“ segir Lárus.
Málið sem kom upp í júní er póstur sem barst KSÍ frá ónafngreindum aðila. Starfsmaðurinn sem opnaði póstinn er tengdamóðir stúlku sem segir tvo landsliðsmenn hafa nauðgað sér árið 2010 á hótelherbergi í útlöndum. Tengdamóðirin sagði í samtali við úttektarnefndina að Guðni Bergsson hafi lagt til að tengdadóttirin og annar mannanna hittust á sáttafundi:
Að sögn Y mun Guðni einnig hafa grennslast fyrir um það í samtalinu hvort einhvers konar sáttameðferð milli leikmannsins og þolandans kæmi til greina. Samkvæmt Y mun hugmyndin að sáttum hafa komið frá Guðna.
Finnst Lárusi að það sé hlutverk KSÍ að miðla málum í svona alvarlegum málum?
„Nei, ég reyndar veit ekki hvort hann átti hugmyndina að því. Ég hreinlega man ekki hvernig það er orðað í skýrslunni. Ég tel auðvitað að það sé ekki endilega hlutverk KSÍ. En það er hins vegar ljóst að mínu mati að það er mjög erfitt að grípa til aðgerða í máli sem er orðið 11 ára gamalt. Þannig að ég skil vel að menn hafi verið að vandræðast með hvað væri hægt að gera. En ég ætla ekki að leggja mat á hvernig var staðið að þessu eða hversu langt það gekk. En það er alla vega ljóst út frá aldri málsins og forsögu þess að þetta er ekki auðvelt mál að eiga við,“ segir Lárus.