Lokun hluta Lækjargötu vegna hótelframkvæmda mun vara í fjögur ár áður en umferð kemst í eðlilegt horf á ný. Fyrir ómakið hefur borgin fengið í sinn hlut rúmlega 150 þúsund krónur.
Hluti Lækjargötu hefur verið lokaður fyrir umferð síðan í maí 2018 vegna hótelframkvæmda. Framkvæmdirnar eru nú á lokastigi og er stefnt er að því að umferð komist í eðlilegt horf í lok apríl á næsta ári. Sem þýðir að þegar yfir lýkur hefur þessi lokun varað í fjögur ár.
Sjöunda leyfið í gildi
Það er mun lengur en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir en óvæntur fornleifafundur og kórónuveirufaraldurinn hafa seinkað opnun hótelsins töluvert. Til að loka fyrir umferð þarf verktaki að sækja um svokallað afnotaleyfi sem gildir til sex mánaða í senn og það leyfi sem er í gildi núna er það sjöunda í röðunni og gildir til loka apríl.
Endurskoðun gjaldskrár tafist
Fyrir hvert afnotaleyfi þarf að greiða 22 þúsund krónur þannig að fyrir fjögurra ára lokun hljóðar heildarreikningurinn upp á 154 þúsund krónur auk þess sem verktakinn greiðir Bílastæðasjóði fasta upphæð á mánuði fyrir afnot af bílatæðunum sem eru innan afmarkaða vinnusvæðisins. Lengi hefur staðið til að endurskoða gjaldskrána.
„Þetta hefur tafist líka út af farsóttinni. Við höfum þurft að einbeita okkur að kjarnastarfseminni hjá okkur og látið svona verkefni fara svolítið til hliðar. En við höfum enn þá það í huga að koma á gjaldskrá sem tekur mið af leigu,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu hjá Reykjavíkurborg.
Hjalti segir að lokunin við Lækjargötu sé óvenjulöng en að borgin hafi sýnt skilning vegna aðstæðna. Leyfið sem nú er í gildi verði það síðasta.
Þrengingar fylgja þéttingu
Á Grensásvegi er einnig búið að þrengja götuna í tengslum við byggingu íbúða á Grensásvegi eitt. Umferð umhverfis Skeifuna er alla jafna mjög þung á álagstímum og verður enn þyngri á meðan þrenging er í gildi. Það leyfi gildir fram í júlí á næsta ári, en þá á uppsteypun bílakjallara að vera lokið. Það var mat samgöngustjóra að ekki væri hægt að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda nema að taka akrein af akandi umferð.
Lokanir sem þessar verða bæði algengari og sýnilegri þegar byggð er þétt. „Alltaf þegar það er verið að þétta byggð, endurnýja borg þá er náttúrlega verið að byggja á þegar byggðum svæðum og það veldur raski á lóðunum í kring og markmiðið með afnotaleyfi á borgarlandinu er að stjórna og stýra þessum framkvæmdum þannig að öryggi, sérstaklega óvarinna vegfarenda, er tryggt,“ segir Hjalti.