Fyrirhugaðir nemendagarðar Lýðskólans á Flateyri verður stærsta nýframkvæmd á eyrinni í meira en tuttugu ár. Skólinn ætlar þó ekki að láta þar við sitja og stefnir á að fjölga nemendum í sextíu á komandi árum.

Kennsla stendur nú sem hæst í Lýðskólanum á Flateyri. Þar eru 32 nemendur við nám á tveimur brautum. Skólinn hefur vaxið ört frá stofnun 2017 og hlaut viðurkenningu Menntamálastofnunar í vor. Vegna húsnæðisskorts hefur þó þurft að neita umsækjendum um skólavist. Nú á að reisa fjórtán íbúða hús á Flateyri til að leysa það vandamál.

Katrín María Gísladóttir skólastjóri segir þetta sögulegt skref, ekki bara fyrir skólann.

„Þetta er fyrsta byggingin sem verður byggð í einhver tuttugu ár á Flateyri. Þannig að þetta er ekki bara risastórt skref fyrir skólann heldur fyrir allt þorpið. Það er mjög spennandi fyrir skólann að vera þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Flateyri.“ 

Ísafjarðarbær hefur veitt skólanum lóð undir húsin við Hafnarstræti sem er aðalgatan á Flateyri. Áætlaður heildarkostnaður er um 240 milljónir króna. Þar af veitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stofnframlag upp á 134 milljónir króna. Framkvæmdir eiga að hefjast í vor og vonast er til að hægt verði að flytja inn við lok árs. 

Vill fjölga brautum og nemendum og gera Flateyri að lýðskólaþorpi

Lýðskólinn tekur nú upp nánast allt leiguhúsnæði á Flateyri fyrir nemendur sína. Katrín segist ekki sjá fram á að losa það húsnæði þegar nýjar íbúðir verða teknar í gagnið. Þær séu fremur skref í að fjölga nemendum.

„Við viljum taka inn að minnsta kosti fjörutíu þegar við höfum tekið nýja nemendagarða í notkun. Framtíðarsýnin er 60 nemendur á þremur brautum. Þær eru tvær núna og við stefnum að því að stofna alþjóðabraut. Vonandi höldum við áfram að stækka og stækka. Ég sé fyrir mér að þetta verði lýðskólaþorp og að það verði aðaldæmið á Flateyri að hér verði skóli og starfsfólk og nemendur í kringum það vonandi langt fram í tímann,“ segir Katrín María.