„Það þarf ekki nema eitt skref þar sem maður missir fótanna og þá getur skaðinn verið skeður,“ segir Hjalti Már Björnsson bráðalæknir á Bráðamóttöku Landspítalans. Allt stefni í að dagurinn verði einn sá þyngsti á deildinni í hálkuslysum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði við mikilli hálku snemma í morgun og var hálkan það mikil að saltbílar áttu í mestu vandræðum við að komast um.
„Álagið í dag hefur verið talsvert mikið út af hálkuslysum,“ sagði Hjalti í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Fljúgandi hálka hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag og höfðu sextán leitað vegna hálkuslysa á bráðamóttökuna klukkan þrjú í dag.
Aukning frá því í nóvember
Um 16 höfðu leitað á deildina út af hálkuslysum klukkan þrjú í dag, í langflestum tilvikum gangandi vegfarendur.
„En þetta er veruleg aukning og við sjáum að venjulega, eins og í nóvember, þá eru þetta fjórir á dag að meðaltali sem komu út af hálkuslysum en það sem af er desember hefur þetta verið svolítið meira eða að meðaltali um tíu á dag. Í gær voru þetta 17 sem komu en eins og ég segi þá vorum við komin upp í 16 strax um þrjú leytið og því miður þá stefnir í að þetta verði með þyngstu dögum í hálkuslysum á deildinni,“ segir Hjalti.
„Í langflestum tilfellum er þetta fólk sem dettur gangandi, en það eru ekki bara þeir sem ferðast milli staða gangandi, heldur líka fólk sem gætir ekki að sér þegar það gengur úr bílnum eða í bílinn. Því það þarf ekki nema eitt skref þar sem maður missir fótanna og þá getur skaðinn verið skeður.“
Hjalti segir að algengustu áverka vera á handleggjum. „En það er þó til í dæminu að fólk fái alvarleg höfuðhögg, hálsáverka og einnig fótbrot og hryggjaráverka. Þannig að það þarf að fara varlega.