Það er keimur af reynslusögum í smásagnasafni Evu Rúnar Snorradóttur, Óskilamunum, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.
Gauti Kristmannsson skrifar:
Eftirtektarvert hefur verið á undanförnum árum að fylgjast með því hvernig mörg tabú eða bannhelgar hafa verið brotnar, sérstaklega í orðræðunni um kynin, öll með tölu. Allt sem áður var sópað undir teppi í fáguðum bókmenntum hefur komið upp á yfirborðið, ósminkað og kannski ögrandi fyrir einhverja. Það hefur tekist að breyta orðræðunni þannig að fólk sem áður var á jaðrinum er komið inn á miðjuna. Bókmenntir hafa löngum fjallað um jaðarsett fólk, fátækt og öðruvísi, konur fengu sitt sérherbergi á tuttugustu öld, en á þessari er það kynsegin fólkið sem hefur komið inn úr skugganum inn í miðju kerfisins og því ber að fagna.
Bókin Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur er safn af smásögum, nánast örsögum, sumum, auk ljóða og ljósmynda. Bókin hefst eiginlega á þremur ljósmyndum af friðarlilju þar sem bataferli hennar eftir vökvun er skrásett og ein sagan ber einmitt heiti þessarar ágætu plöntu og segir einmitt frá slíku bataferli meðal annars. Plöntur eru raunar eitt af merkingarsviðunum sem tengja sumar sögurnar saman þótt ekki sé gott að sjá beinlínis hvernig. Þær hafa samt einhvern veginn uggandi áhrif á sögukonuna sem segir frá; fyrsta sagan, ef frátalinn er nokkurs konar skáletraður formáli örvæntingar konu sem „vaknar upp í fangi aldraðs barþjóns“, fyrsta sagan eftir myndirnar af friðarliljunni er einmitt um ferð á blómasýningu þar sem sögukonan og eiginkona hennar eru kynntar til leiks, ef svo má segja, því ég geri því skóna að fyrstu persónu frásagnirnar séu allar sagðar frá sjónarhóli sömu konunnar. Þessar frásagnir allar minntu stundum dálítið á reynslusögur þótt í mörgum megi finna fínan skáldskap, jafnvel dálítið klassískar smásögur með vendingu í lokin sem kemur á óvart.
Í næstu sögu, „Hvítur hestur“ kemur í ljós að söguröddin er frá listakonu komin og það er annar þráður í þessum sögum, allmargar snúast um samkomur listamanna, ráðstefnur eða listahátíðir. Það er að vísu enginn beinlínis hvítur hestur í þessari sögu, en hann dúkkar upp síðar í bókinni, eins og ýmis gæludýr sem oft er sagt frá með skondnum hætti. Aðrar tengingar snúast um kynuslaflækjur, að koma út úr skápnum, flókið samlíf með eiginkonunni sem leitar út fyrir hjónabandið og síðan átök í sambandinu, skilnað og fleira. Eftir lestur bókarinnar fannst mér þessir þræðir ganga ágætlega upp þótt ég sæi það ekki í byrjun, en sagan skilur eftir sig mynd af konu sem er að takast á við sjálfa sig, umhverfið og tilraunamennsku yngri áranna þegar allt er óljóst og óákveðið.
Sem dæmi má nefna Interrail-ferðalag sögukonunnar, en margar sagnanna snúast um ferðalög, söguhetjan er oft „in transit“ eins og sagt er á ensku, og undirstrikar það breytingar, umskipti í sálarlífi hennar, trúi ég. En þetta er stundum gert af kíminni kaldhæðni eins og í þeirri sögu sem kallast „Síðasta ferðalag tannanna“ og hefst á því að sagt er frá því að taka þurfi úr sögukonunni endajaxlana, eða vísdómstennurnar eins og þær voru áður kallaðar. Sársauki er nefnilega líka enn önnur tengingin enn milli sagna og myndar einn þráðinn í vefnum. Sagan „Grenitré“ segir frá sárri reynslu sögukonunnar í æsku, atvikið sjálft olli ekki sársauka, en upplifunin skildi eftir sig djúpt sár sem hún gat ekki gleymt.
Óhófleg áfengisneysla og djammið mynda líka annan þráð, hugsanlega til að tengja óvissuna um tilfinningarnar sem rísa þegar sögukonan finnur að hún er inni í skápnum; sagan „Money for nothing“ dregur upp mynd af því, hún sefur hjá einhverjum útlendum dreng af því að vinkona hennar vill vera með vini hans. Það sem eftir situr er samt ekki kynlífið heldur harmur móður annars drengsins sem er orðin þræll Bakkusar eins og maðurinn hennar. En sögukonan á líka til að drekkja sorgum sínum í víni. Sagan „Drink and dial“ segir frá einni listamannasamkomunni þar sem þessi annars opinskáa sögurödd neitar að gefa lesendum upplýsingar. Um er að ræða gjörning sem felur í sér að þátttakendur drekki sig fulla og hringi svo í einhvern sem þau þekki og segðu „frá einhverju sem þeir vildu losa sig við“ eins og þar segir. Gjörningur sem ég gæti ímyndað mér að væri dæmdur til að enda með ósköpum, enda gerir hann það, en sögukonan segir við lesendur sína: „Það sem ég hafði að segja er of persónulegt til að greina frá því hér.“ Dálítill löðrungur á lesendur sem kalla ekki allt ömmu sína þegar hér er komið í lestrinum, en hún segir einungis frá því sem aðrir gerðu í þessum símtölum.
Bókin er annars með þeim brag hægt væri að kalla hana unna með blandaðri aðferð, því auk ljóða koma ljósmyndir við sögu, sú áðurnefnda af friðarliljunni og önnur, heil opna, af listaverki þar sem trjágreinar koma við sögu og ber enskan titil, hér í lauslegri þýðingu „Hundrað ár af uppsafnaðri þögn, fönguð í viðtali við tré 6. júní 2019.“ Þriðja ljósmyndin er síðan óljósari og án titils og næ ég ekki alveg tengingu hennar við frásögnina. Ljóðin má síðan kannski túlka sem trega- og saknaðarljóð til ástkonunnar sem glataðist.
Eins og áður sagði fannst mér vera keimur af reynslusögum í þessari bók og fannst jafnvel að titillinn, Óskilamunir, gæfi það í skyn. En í sögunni „Plantan í biðstofunni“ kemur fram hver óskilamunurinn er þegar sögukonan rekst á plöntu á nokkurs konar biðstofu, sem reyndar eru fleiri en ein í bókinni, í anddyri Stýrimannaskólans eftir misheppnað einnar nætur gaman með einum nemanda á heimavist þar. Plantan talar til hennar, ögrar henni einhvern veginn og hún segir í framhaldinu um hana: „Henni fannst fyndið að sjá mig þarna á skólabekknum, þrotaðan óskilamun næturinnar.“ Sögukonan er enn á villigötum, en eitthvert ljós rennur þarna upp fyrir henni um sjálfa sig.
Þótt ég hafi ályktað sem svo að söguröddin sé ein og hin sama í öllum sögunum eru þær ekki sagðar í neinni tímaröð, þær fara aftur og fram í tímaskeiðum ævinnar hjá ungri konu, tímaskeið umskipta og breytinga í lífi hennar, uppgötvun kynvitundarinnar, samband og skilnað við konuna sína og einnig móður sína. Þetta kristallast í sögunni „Marblettir“ þar sem sögukonan er að heimsækja móður sína fárveika og uppgötvar þar endanlega raunverulega kynhneigð sína í ást á annarri konu. Þetta er æði grimmt, móðirin líkast til að skilja við og hún uppgötvar ást sína til konu. Sögurnar „Leiðir skiljast“ og „Friðarliljan“ áðurnefnda fjalla síðan um tvenns konar aðskilnað, við æskuvinkonu og eiginkonuna, geri ég ráð fyrir. Það sem á eftir kemur er dálítið bragðdaufara en það sem á undan er gengið og bætir ekki miklu við. En þessar sögur bæta heilmiklu við með því að brjóta niður gamlar og úreltar bannhelgar og kanna snöfurlega nýjar slóðir í bókmenntum tuttugustu og fyrstu aldar.