Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar gagnrýna ráðningu Jóns Gunnarssonar á aðstoðarmanni sínum, Brynjari Níelssyni. Bæði Brynjar og Jón hafi til að mynda verið mótfallnir frumvarpi um þungunarrof og þeim sé ekki treystandi til að fara með svo mikilvægan málaflokk.
„Mér þykir þetta vera furðulegt. Ég get ekki ímyndað mér að Vinstri grænir hafi mjög mikinn áhuga á þessari ráðningu heldur. Jón er að taka við risastórum og mikilvægum málaflokki og hann er að ráða til sín aðstoðarmann sem hefur á öllum sínum þingferli lagt fram eitt þingmál, hann lagði bara fram eitt þingmál og það var tálmanafrumvarpið sem snýr að því að fangelsa foreldra sem eru að tálma umgengni barna. Það segir ótrúlega mikið um pólitík fólks og mér þykir það vera hættulegt að vita til þess að þessir tveir menn séu að fara að vinna saman að því að taka á kynferðisofbeldismálum og trúi því ekki að það sé neitt uppi á teningnum að taka almennilega á þeim málaflokki,“ segir Halldóra.
Þorgerður Katrín var spurð að því hvort að hún treysti Jóni og Brynjari til að fara með málaflokkinn og bæta til að mynda stöðu þolenda í kynferðisbrotamálum.
“Nei, ekki þegar kemur að þessum málaflokki þó að ég hafi átt gott samstarf við Jón og Brynjar í gegnum tíðina. Mér þykir vænt um þessa menn, ég viðurkenni það en á móti kemur að það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirra pólitík þegar kemur að til dæmis kvenfrelsismálum. Þungunarrofsfrumvarpið sem Svandís lagði fram. Hverjir voru það sem studdu það ekki? Forysta Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson, Brynjar Níelsson. Þeir greiddu atkvæði gegn þessu,“ segir Þorgerður.
Þrýstihópar og aktívistar á vettvangi ofbeldismála hafa gagnrýnt ráðningu Brynjars. Jón lætur það sem vind um eyru þjóta.
„Ég velti þessu ekkert fyrir mér. Þetta er ákvörðun tekin á faglegum nótum. Ég hef engar áhyggjur af þessari umræðu, hún truflar mig ekkert. Margt af því sem þar hefur komið fram er ekki svaravert og mjög ómálefnalegt og engin innistæða fyrir. Ég skelli skollaeyrum við slíku og læt þetta ekkert trufla mig. Við skulum láta verkin tala.“ segir Jón.
Alla þætti Vikulokanna á Rás 1 má nálgast hér. Hér að ofan má hlusta á þátt dagsins.