María Líf Reynisdóttir stökk inn í síðustu umferð á dýnu þegar íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum varð Evrópumeistari. Fyrirliði liðsins, Andrea Sif Pétursdóttir, hafði meiðst í umferðinni á undan. María segist þó hafa verið ótrúlega róleg miðað við aðstæður. „“

Ísland varð í dag Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna eftir harða keppni við Svíþjóð. Að lokum var það sigur á einstökum áhöldum sem skar úr hver myndi hreppa titilinn en Ísland vann bæði gólfæfingarnar og trampólínið en Svíar dýnu. 

Andrea Sif meiddist eins og áður sagði í annarri umferð á dýnunni hjá íslenska liðinu og gat því ekki tekið þátt í þeirri þriðju. María Líf Reynisdóttir hoppaði þá inn í og afgreiddi sitt stökk fagmannlega. „Ég var eiginlega ótrúlega róleg. Þetta hefur gerst áður og þá panikkaði ég þannig ég er með æfingu í þessu,“ segir María. Hún segist mikilvægast að vera rólegur á tímapunktum sem þessum. „Og bara upp með hökuna.“

Sigur Íslands á mótinu er sá fyrsti síðan 2012 en síðan þá hefur Svíþjóð tekið gullið og Ísland silfur. „Ég er eiginlega ekki alveg búin að trúa þessu ennþá. Ég veit í alvörunni ekki hvað er að gerast, þetta kikkar örugglega inn eftir smá,“ sagði María rétt eftir að Evrópumeistaratitillinn var í höfn. Hún segir að rekistefna hafi orðið innan liðsins þegar þær sáu að þær voru með jafnmörg stig og Svíþjóð um hvort að þær hefðu raunverulega unnið eða ekki. „Þegar ég kíkti á skorið þá var ég bara Nei ég er ekki viss. Allir bara út um allt, en af því að við unnum tvö áhöld af þremur þá urðum við í fyrsta.“

Viðtal við Maríu má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.