Ísland varð í dag Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna. Síðustu þrjú Evrópumót hefur liðið orðið að sætta sig við silfur og að gullið fari til Svía en því var öfugt háttað í dag. Kolbrún Þöll Þorradóttir segir ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem það er að öll þrotlausa vinnan sé loksins að skila sér.
Bæði trampólín og gólfæfingar gengu nær fullkomlega upp hjá stelpunum og dýnan var svo þeirra síðasta áhald. Kolbrún viðurkennir að það hafi verið smá stress í liðinu og að hún hafi haft það á bakvið eyrað hversu vel hefði gengið hingað til. „Einhvern veginn gerðist þetta, ég veit ekki hvernig,“ sagði Kolbrún sem segist ekki horfa mikið á stelpurnar á undan sér. „Einhvern veginn kláruðum við þetta.“
Kolbrún framkvæmdi eitt erfiðasta stökk sem gert er í kvennaflokki á trampólíni, tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu. „Ég lenti aðeins djúpt, hef gert hana aðeins betur, en ég geng samt sátt frá gólfinu.“ Hún segist ekki viss um hvernig fagnaðarlátum verður háttað hjá liðinu þar sem það þarf að vakna í flug klukkan fjögur í nótt. „En við erum allavega í hamingjukasti.“
Viðtalið við Kolbrúnu Þöll má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.