Rúmenska kvikmyndin Ógæfureið eða klikkað klám er með áhugaverðustu kvikmyndum ársins og skemmtilega óvenjuleg og fyndin, segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi.


Gunnar Ragnarsson skrifar:

Rúmenska kvikmyndin Ógæfureið eða klikkað klám (Babardeală cu bucluc sau porno balamuc), eftir leikstjórann Radu Jude, vann Gullbjörninn, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Berlín, fyrr á árinu og er nú sýnd í Bíó Paradís. Ógæfureiðin hefst, vægast sagt, með hvelli. Já, ekki beint eins og hefðbundin fagurkvikmynd, og þó, á sjötta áratugnum náði evrópska listabíóið miklum vinsældum í Bandaríkjunum (sígild verk kvikmyndahöfunda á borð við Antonioni, Bergman og Fellini) ekki síst út af hispursleysi hvað varðar nekt. Vissulega er flogið um allt aðra vetrarbraut í þessari. Þetta er hreinasta, argasta, eða eins og það er orðað í íslenskri þýðingu titilsins,- „klikkað klám“. Myndavélin hristist í höndum karlmanns sem myndar eiginkonu sína. Hlébarðamynstruð gríma skýlir augum konunnar, sem horfir í linsuna og biður spúsann um að láta taka sig. Myndefnið sver sig í vissa ættkvísl klámgreinarinnar, heimavídjóið, þegar „raunveruleg“ pör sjást að leik á heimilum sínum. Lögmál kvikmyndagreinarinnar eru höfð í heiðri, sjónarhornið er karlsins, og einblínir á konuna og líkama hennar en af líkama hans er limurinn helst sýnilegur sem greiðir leið heterókarlsins inn í vitundina. Stillt er í BJ og doggí, brot af því besta. Nema hvað, á einum tímapunkti verður raunsæisleikurinn einum of hversdagslegur er kvenrödd heyrist handan rammans, rödd móður konunnar að því virðist, og spyr hvenær þau ætli eiginlega að aðstoða hana við að sækja lyfseðilinn, eða eitthvað í þá veru, og dóttirin ansar gremjulega en lætur truflunina lítið á sig fá. Þessi litli atburður hefur tvöfalda virkni, annars vegar afbyggir hann klámáruna með fyndninni, þetta myndi auðvitað ekki gerast í hefðbundnu klámi, sem leiðir hugann að sviðsetningunni. Gróf kynlífssenan hristir upp í og setur áhorfandann í ákveðnar stellingar. Á hvað er ég að horfa og hver er ætlunin sem býr að baki?

(Slæmur) dagur í lífi konu í Búkarest

Skærbleikur litur hylur skjáinn og fjörug tónlist ómar undir þegar titilspjöld birtast um væntanlegan fyrsta kafla myndarinnar með ítarlegum háfleygum undirtitli en yfirbragðið er farsakennt eins og sprenghlægileg neðanbeltisgamanmynd sé í vændum. Það sem við tekur er þó af öðrum meiði. Við sjáum konu vafra um matarmarkað og skoða blóm, og eins og aðrir viðstaddir ber hún andlitsgrímu sem skýrir hvenær frásögnin á sér stað. Skotið er vítt, þannig að áhorfandinn getur gaumgæft hvert smáatriði söguheimsins, og leitað sér upplýsinga með virku áhorfi. Augnaráðinu er þó vitanlega stýrt á mjög meðvitaðan hátt en hægt og bítandi kemur endurtekið stílbragð í ljós. Öll myndskeið kaflans eru nefnilega byggð upp á keimlíkan máta. Myndavélin sýnir borgarlandslag og konuna innan þess í víðum skotum. Myndavélin er kyrrstæð á þrífæti en skimar til beggja hliða og færist jafnvel upp og niður og fylgir ferð söguhetjunnar, eða ekki. Konan er ekki alltaf í ramma. Stundum gengur hún inn í rammann en hverfur á endanum alltaf frá, fer handan þess sem er sýnilegt eða sjónarhorninu er einfaldlega beint frá henni og í aðra átt. Sögukaflinn og efnistök hans eru innan natúralískrar  hefðar, líkt og áhorfanda sé þrýst inn í hringiðu stórborgarinnar til að fylgjast með, en endurtekningin kallar fram, líkt og þegar mamman ruglaða spurði um lyfin sín í miðjum klíðum, spurningar um sviðsetningu og ætlun verksins.

Smátt og smátt kemur í ljós að stórborgarkonan er stjarna heimaspólunnar. Myndskeiðið af hjónunum hefur ratað á netið, af óræðri ástæðu, þar sem það var tímabundið aðgengilegt á bloggsíðu og í framhaldinu á helstu og þekktustu klámveitu heimsins. Konan er sögukennari við virtan einkarekinn gagnfræðaskóla og stefnir myndbandið starfi hennar í hættu. Við sjáum dag í lífi hennar en þetta er dagurinn sem klámmyndband með henni fór í dreifingu meðal almennings. Konan, Emilía, fer heim til skólastjórans sem segir henni að foreldrar barna í skólanum hafi kallað til neyðarfundar. Hún ræðir við eiginmann sinn í símann, ítrekað. Hún reynir að kaupa sér kvíðastillandi lyf í apóteki, skoðar leikföng fyrir börnin sín í stórmarkaði, sest á kaffihús og reynir að halda sönsum. Umhverfið, Búkarest, er ekki síður mikilvægt. Litlar hliðarsögur borgarinnar sýna fram á hugmyndafræðileg átök sem verða síðar meir orðuð með beinum hætti. Neysluhyggja og efnisblæti hnattræns kapítalisma, limósínur innan um Frozen-varning og Hvolpasveitar-skemmtitæki, auglýsingaskilti sem sýna stækkaða og olíuborna líkama. Kynlíf er leið til að selja, allt er falt, glysið er geigvænlegt. Karlremba og kynbundið ofbeldi kraumar undir og er sýnt með spaugilegum hætti. Þrívegis leggja karlmenn bílum (jafnan jeppum á risadekkjum) á gangstéttinni og hreyta fúkyrðum yfir þær beljur á beit sem voga sér að mótmæla. „Ég á þetta, ég má þetta“-hugarfarið persónugert. Almennt eru borgarbúar óvinveittir hverjir öðrum, tekist er á í röðinni á kassanum eða götuhorninu, teikn um klofið og brotakennt nútímasamfélag.

Hugmyndastríð í mörgum myndum

Annar kafli myndarinnar gerir þennan hugmyndafræðilega usla verksins enn skýrari með pólitísku og formrænu andófi. Bleika titilspjaldið kynnir „stutta orðabók með skrýtlum, táknum og undrum“. Farið er kerfisbundið og galsafullt í gegnum stafrófið frá A til Z, og ýmis hugtök „útskýrð“ á meðan hljóð, mynd og textalegar upplýsingar dynja á áhorfandanum. Margvíslegu samspili þessara þátta er ætlað að skapa díalektíska spennu og eru áhrif kvikmynda og kenninga sovésku myndfléttunnar, þá sérstaklega Sergeis Eisensteins, grunnurinn. Notast er við heimildarmyndefni, margt eldfimt og hroðalegt. Saga Rúmeníu og Evrópu á 20. öld er m.a. til umfjöllunar: kommúnisminn, fasisminn og helförin til að mynda. Skýringartexti segir „blowjob“ vera orðið sem fólk flettir oftast upp í orðabók (um leið og samsvarandi athöfn er sýnd á tjaldinu). Slíkar grafískar orðabókafærslur eru fleiri en ef til vill er ekki nauðsynlegt að nefna þær allar hér. Þetta er vissulega allt saman svolítið mikið af því góða. Orðabókin hreinlega ofhleður skynfærin í vitsmunalegri orrahríð við allt og alla. Það er ekkert lúmskt við þessa kvikmyndagerð en tilgangurinn er að stuða áhorfandann til þess að stækka samhengi og leggja á borð fyrir hugmyndafræðileg átök lokakaflans.

Þriðji og síðasti kaflinn eru réttarhöld foreldranna yfir sögukennaranum og heimaklámstjörnunni Emilíu. Enn og aftur eru efnistökin allt önnur en áður var. Ógæfureið er farsi, ekki síst þegar kemur að skeytingarleysi Radus Judes gagnvart kvikmyndaforminu. Réttarhöldin eru helber satíra og gjörólík raunsæi fyrsta kaflans en stakkaskiptin eru einnig stílræn; úr löngum líðandi borgartökum yfir í uppstilltar nærmyndir af litríkum persónum sem ört er klippt á milli. Í upphafi atriðisins stendur ein móðir upp og sýnir kynlífsmyndbandið í heild sinni á spjaldtölvu á meðan hinir foreldrarnir góna á. Emilía á að vera smánuð, það er það sem fólkið vill. Foreldrarnir eru erkitýpur, teiknimyndalegar fígúrur sem tala í endalausa hringi á meðan kennarinn reynir að verja sig og þrætir við þau um sagnfræðilegar staðreyndir og hugmyndastrauma. Rasimi, fasismi, helfararafneitun og endalaus kvenfyrirlitning í bland við dægurmenningarvísanir. Fáránleikinn táknar athyglisbrest og illsku nútímans. Að lokum segir kvikmyndin að þetta sé nú allt í gamni gert – allt í plati rassagati – og býður upp á þrjár mögulegar útkomur frásagnarinnar. Í síðasta valmöguleikanum er loksins troðið ofan í kjaftaskana, sem er gullfallega klúrt.

Almennt er ég tortrygginn í garð listaverka sem ganga viljandi fram af manni og æpa pólitískar meiningar sí og æ. Tilgangurinn helgar þó meðalið í þessu tilfelli. Ógæfureið eða klikkað klám er með áhugaverðustu kvikmyndum ársins og skemmtilega óvenjuleg og fyndin á köflum. Það er einmitt fyrir mynd á borð við þessa, sem við getum verið þakklát því að eiga alvöru listabíó í Reykjavík, og er óhætt að mæla með heimsókn á Hverfisgötuna.