Íslenska karlalandsliðið í hópfimleikum varð í gær í öðru sæti í undanúrslitum Evrópumótsins sem fram fer í Portúgal. Eysteinn Máni Oddsson var hæstánægður með frammistöðu liðsins í gær og getur ekki beðið eftir úrslitunum á laugardag.
Þetta er aðeins í annað sinn sem karlalið frá Íslandi keppir á mótinu en það var síðast árið 2010. Þá varð karlaliðið í fjórða sæti en síðan þá hefur ekkert íslenskt karlalið keppt í fullorðinsflokki á mótinu. Í undanúrslitunum í gær varð íslenska liðið í öðru sæti, rúmlega tveimur stigum á eftir Svíþjóð sem varð í fyrsta sæti. Danmörk, sem borið hefur höfuð og herðar yfir karlakeppninni á Evrópumeistaramótum, sendi ekki lið á mótið í ár vegna heimsfaraldursins.
Því er ljóst að nýir Evrópumeistarar verða krýndir í karlalfokki en Danir hafa verið hlutskarpastir í þeim flokki síðan árið 1998 og hafa raunir orðið Evrópumeistarar öll þau ár sem mótið hefur verið haldið, að undanskildu fyrsta Evrópumótinu árið 1996.
Eysteinn Máni segir undanúrslitin í gær hafa farið alveg eftir plani. „Við stóðum okkur rosalega vel í dag, lentum næstum öll stökkin okkar og það var markmiðið. Standa okkur ógeðslega vel en samt eiga nóg inni á laugardaginn. Það er nákvæmlega það sem við gerðum.“
Strákarnir í liðinu hafa æft í sitthvoru félaginu en síðastliðið ár hafa þeir allir æft með Stjörnunni en að sögn Eysteins ná þeir miklum krafti úr hvor öðrum þegar þeir æfa saman. „Við erum búnir að ná að búa til þvílíkt góða liðsheild, líka fyrir utan salinn erum við bara bestu vinir,“ segir Eysteinn en það er mjög mikilvægt í íþrótt eins og hópfimleikum og á stórmóti eins og Evrópumótinu.
„Það er eitt að stökkva á æfingu og svo þegar þú ert kominn í svona action þar sem hjartað er á fullu. Þá þarftu að skilja hvernig hvor annar er og geta bara Hey! horft í augun á honum, þú ert með þetta!“
Eitt er víst að á laugardag verður boðið upp á flugeldasýningu. „Við stefnum á að keyra klikkaðasta mót sem Ísland hefur séð,“ segir Eysteinn að lokum.
RÚV sýnir beint frá úrslitum í fullorðinsflokki á morgun laugardag, útsendingin hefst klukkan 12:55 með úrslitum í flokki blandaðra liða. Keppni hjá kvennaliðum byrjar 14:45 og karlaliðin stíga svo á stokk klukkan 16:55.