Íslenska stúlknalandsliðið í hópfimleikum var í kvöld í öðru sæti í unglingaflokki á Evrópumeistaramótinu í Portúgal. Aðeins munaði 0,1 stigi á Íslendingunum og Svíum sem urðu Evrópumeistarar. Una Brá Jónsdóttir, þjálfari stúlknaliðsins segir það rán um hábjartan dag að tapa með svo litlum mun.

Una segist þó auðvitað vera mjög sátt með árangurinn. „Við gerðum allt sem okkur langaði að laga og svo er þetta bara í höndunum á dómurunum. Niðurstaðan er samt auðvitað svekkjandi en við erum bara glaðar með okkur.“ 0,1 stig er eins lítill munur og hann gerist í hópfimleikum og aðspurð hvernig það er að tapa með slíkum mun var Una með svör á hreinu. „Það er bara rán um hábjartan dag, það er bara þannig. En það er ekkert við því að gera.“

Birta Sif Sævarsdóttir, annar fyrirliða liðsins, segir það hafa verið ótrúlega skemmtilegt að keppa á mótinu og að árangurinn sé auðvitað geggjaður. „Það er smá svekk hvað það munaði litlu en við erum bara mjög sáttar. Við hækkuðum okkur og hefðum ekki getað gert þetta betur.“

Viðtölin við Unu og Birtu má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. Úrslit í fullorðinsflokki fara fram á morgun er þar á Ísland lið í kvenna- og karlaflokki. Mótið verður sýnt beint á RÚV og hefst útsending klukkan 12:55.