Fyrsta loðnan er farin að veiðast en veiðar fara rólega af stað. Rússlandsmarkaður fyrir frysta loðnu er lokaður og því verður loðnan brædd í verðminna mjöl framan af vertíð.
Undirbúningur fyrir stóra loðnuvertíð er í fullum gangi hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Þar er verið að standsetja nýtt og fullkomið uppsjávarfrystihús. 35 iðnaðarmenn vinna þar sleitulaust við framkvæmdina sem kostar um 1,1 milljarð króna.
„Þetta er raunverulega alsjálfvirkt. Við vorum með áður svona 30 manns en verðum með 12-14 á vakt. Það er sjálfvirk innmötun í skápana og sjálfvirk útmötun. Sjálfvirkur útsláttur. Sjálfvirkrar kössunarvélar, sjálfvirkir staflarar á bretti. Þetta eru miklu meira bara eftirlitsstörf í staðinn fyrir að þetta var mjög erfið vinna hjá okkur áður," segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Búnaðurinn er frá Skaganum 3X á Akranesi og Kapp í Reykjavík.
Ekki þarf að segja neinum upp heldur verður hægt að hafi bolfiskvinnsluna öflugri á sama tíma. Nýir frystiskápar afkasta mun meira en þeir gömlu og ekki veitir af, enda þarf íslenski flotinn að veiða rúm 660 þúsund tonn af loðnu. Loðnan er lítið farin að þétta sig í torfur og illa hefur gengið að veiða í nót. Því heimilaði ráðherra veiðar með trolli. Friðrik segir að fyrsta loðnan sem veiðist fari líklega í bræðslu. „Kannski verður eitthvað fyrst á Úkraínu en sá markaður er ekki góður og það er lokað fyrir Ísland inn á Rússland síðan 2015, sem er rosalega slæmt mál. Það hefði verið mjög mikilvægt að hafa þann markað í gangi núna.