Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum varð í kvöld í öðru sæti í undanúrslitum Evrópumeistaramótsins sem fram fer í Portúgal. Ljóst er að baráttan verður hörð milli Íslands og Svíþjóðar í úrslitunum á laugardag. Tinna Ólafsdóttir segir þó eitthvað hægt að bæta fyrir úrslitin.
Gólfæfingar liðsins voru glæsilegar og þá voru fyrri tvær umferðirnar á hvoru áhaldi fyrir sig, dýnu og trampólíni, afar fagmannlega afgreiddar. Tinna segir hins vegar að síðustu umferðirnar á báðum þessum áhöldum sé eitthvað sem þær hafi oft gert betur. „Við ætlum bara að negla þetta á laugardaginn,“ bætir hún við.
Liðið er einstaklega samheldið að sögn Tinnu og allar eru þær mjög góðar vinkonur. „Við erum alltaf saman. Æfum fimm sinnum í viku og svo hina dagana erum við saman í sundi. Við erum bókstaflega fjölskylda.“
Á morgun er hvíldardagur hjá stelpunum sem keppa svo á laugardag í úrslitunum. Deginum verður eytt í heilsulind hótelsins sem liðið dvelur á. Við ætlum að fara í spa á hótelinu loksins af því að það var lokað í gær...með sundhettur,“ segir Tinna og hlær.
Viðtalið við Tinnu í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. RÚV sýnir beint frá úrslitunum á laugardaginn og hefst útsendingin klukkan 12:55.