Þrír hafa greinst með staðfest omíkron-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi. Kári Stefánsson segir að grunur sé um fjögur smit til viðbótar. Þau gætu því verið sjö, en allir tengjast mikið. Sóttvarnalæknir segir að meðan óvissan í faraldrinum er mikil þurfi að fara hægt í afléttingar á sóttvarnatakmörkunum innanlands.
Karlmaður á áttræðisaldri liggur á Landspítala með omikron afbrigði veirunnar. Hann er fullbólusettur með örvunarskammt. Sóttvarnalæknir segir hann ekki með mikil covid-einkenni.
Miðað við að þessi einstaklingur var ekki í útlöndum er þetta afbrigði þá útbreitt hérlendis? „Það er ómögulegt að segja en það er hugsanlegt að það séu tengsl við útlönd hjá þessum einstaklingi, en það er bara verið að skoða það nánar,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
„Það voru tveir úr sýnum gærdagsins sem reyndust vera sýktir af þessu afbrigði sem bætist þá við þann sem nú liggur upp á Landspítala,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Vísbendingar um omíkron-afbrigðið koma strax fram við greiningu PCR-prófs, þá kemur upp annað mynstur en venjulega. Þannig mynstur hefur komið upp hjá fjórum til viðbótar og því er grunur um að þeir séu líka með omíkron afbrigðið. Því segir Kári líklegt að alls séu smitin sjö en þau tengist öll.
Mörgum spurningum ósvarað
Omikron-afbrigði veirunnar er meira stökkbreytt en önnur - en að öðru leyti er lítið vitað um það. Því er mörgum spurningum enn ósvarað. „Það er margt sem bendir til að þetta geti verið meira smitandi, það eru ekki öll kurl komin til grafar,“ segir Þórólfur.
„Við vitum ekki hvort það veldur meiri eða minni sjúkdómi,“ segir Kári.
„Svo erum við enn að bíða eftir því hvort bóluefnin virki og verndi,“ segir Þórólfur.
„Það er hins vegar full ástæða til að fylgjast vel með þessu,“ segir Kári. „nú raðgreinum við á hverjum degi, til að fylgjast með því hvernig þetta afbrigði dreifir sér í íslensku samfélagi.“
Áður var jákvæðum sýnum safnað saman yfir nokkra daga. Líklegt er að svör við öllum þessum spurningum verði ljós á næstu einni til tveimur vikum. Þórólfur segir að enginn hafi til þessa veikst alvarlega af afbrigðinu í Evrópu.
Flýta okkur hægt í afléttingum
Í ljósi stöðunnar segir Þórólfur ekki enn ástæðu til að herða aðgerðir á landamærunum. Hann áréttar að enn séu sömu persónubundnar sóttvarnir bestar til að verjast veirunni og að það sé mikilvægt að þau sem séu með einkenni eða hafi verið í tengslum við smitaðan fari í PCR próf, ekki aðeins hraðgreiningu. Kúrfa smita mjakast hægt niður, enn eru yfir 100 smit að greinast á dag, fyrir utan um helgina þegar færri fóru í sýnatöku. Sóttvarnaaðgerðir innanlands renna út eftir viku.
„Meðan að staðan er svona óviss eins og hún er núna, kúrfan er að fara hægt niður og við erum með nýtt afbrigði sem veldur mikilli óvissu, þá þurfum við að flýta okkur hægt í afléttingum,“ segir Þórólfur.