Þegar kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Zophoníasson var ungur gekk hann í gegnum miklar hremmingar, missti móður sína og glímdi við erfið fjölskyldumál. Þrátt fyrir allt telur hann sig hafa verið heppinn á lífsleiðinni og er þakklátur.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Zophaníasson, betur þekktur sem Baldvin Z, var 12 ára þegar hann missti móður sína úr brjóstakrabbameini. Hann ólst jafnframt upp við flókið fjölskyldumynstur vegna misnotkunarmáls sem sundraði fjölskyldunni. Baldvin Z ræðir við Sigurlaugu Margréti Jónsdóttur í þættinum Okkar á milli, sem er á dagskrá í kvöld, um þessa erfiðu lífsreynslu og sköpunarkraftinn sem kom honum í gegnum þetta.
Hefur tekið þetta til sín sem gjöf
„Mér finnst eins og ég sé ótrúlega heppinn, þrátt fyrir að það hafi verið miklar og stórar hremmingar í kringum mig þá hef ég kosið að líta á það sem styrk fyrir mig,“ segir Baldvin en hann var 10 ára gamall þegar móðir hans veiktist úr brjóstakrabbameini. Á sama tíma byrjaði hann að skrifa sögur og búa sér til einhvers konar hliðarveruleika.
Þrátt fyrir að það sé erfitt fyrir lítinn strák að horfa upp á mömmu sína berjast við svo slæman sjúkdóm þá segir Baldvin þetta ferli hafa styrkt sig. „Ég hef tekið þetta til mín sem gjöf, ég syrgi mömmu mína en mér finnst ég samt hafa verið heppinn að hafa fengið þessa lífsreynslu. Auðvitað myndi ég alltaf vilja skipta þessu.“
Á sínum tíma hafi það verið siðferðismál sem skipti sköpum, hvort taka ætti brjóstið eða ekki. „Það var ekki eins sjálfsagt á þessum tíma að kippa brjóstinu í burtu,“ segir Baldvin og á endanum var ákveðið að taka það ekki. „Það er mjög erfiður biti að kyngja.“
Nauðsynlegt samtal
Áður en móðir Baldvins lést áttu þau mæðgin langt spjall þar sem hún sagði honum fjölskyldusöguna og gaf honum góð heilráð. „Þetta er eitthvað sem foreldrar eiga að gera fyrir börnin sín, þó svo að þau séu ekki deyjandi manneskjur,“ segir Baldvin. „Ég fékk þarna nokkra daga þar sem við sátum og tókum samtalið, þar sem hún lagði fyrir mig lífsreglurnar og sagði mér frá öllu sem ég þurfti að vita. Í þessu samtali áttaði ég mig á hver fjölskyldan mín var, ég fór að skilja hlutina betur.“
Baldvin var ekki nema 2 ára þegar upp kom misnotkunarmál sem sprengdi fjölskylduna. Fólk úr lífi hans hvarf allt í einu, móður hans bárust skrítin símtöl og árlega komu upp rifrildi í kringum afmæli hennar. „Systir mín lendir í því að vera útskúfuð úr stórfjölskyldunni,“ segir Baldvin, þá hafi ættingjarnir ekki trúað hennar frásögn.
„Það er áhugavert að velta þessu upp núna í dag út af öllu umtalinu sem er í gangi.“ Baldvin segir þetta hafa verið ekkert nema gerendameðvirkni og „cancel culture“ í garð systur hans. Mömmu hans hafi borist símtöl frá ættingjum því systirin sást brosandi niðri í bæ: „Það er ekkert að henni, hún er brosandi!“
Styrkurinn í þögninni
„Mörgum árum seinna þegar ég ákveð að fjalla um þetta í Vonarstræti og tala opinskátt um þetta, þá fæ ég símtöl um að ég megi ekki gera þetta, þetta sé bull og vitleysa,“ segir Baldvin. „Styrkurinn í þögguninni er svo mikill og svo magnað fyrirbæri.“
Hann segir símtölin ekki hafa komið sér á óvart en þykir mikilvægt að þolendur séu að upplifa að loksins sé umræðan að breytast, að ekki sé lengur í boði að skauta yfir þessi mál.
Móðir hans hafi útskýrt öll þessi mál svo vel fyrir honum en einnig kennt honum að sækjast eftir því sem hann vildi gera. „Það er svo margt úr þessu samtali sem fór inn í bankann og grófst þar inni. Svo mörgum árum seinna þegar ég rifja upp þetta samtal, þá er ég svolítið ómeðvitað kannski búinn að vera vera að lifa eftir þessu.“
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Baldvin Zophoníasson í Okkar á milli. Þátturinn er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:05.