Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. Líkt og undanfarin ár voru loftslagsmál forsætisráðherra ofarlega í huga, en einnig heilbrigðismál og málefni örorkulífeyrisþega, sem og stjórnarskrárbreytingar.

Umræður um stefnu forsætisráðherra standa fram eftir kvöldi. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá Alþingi, ásamt textalýsingu, á vefnum.

Katrín hóf mál sitt á að ræða stjórnarsáttmála hinnar nýskipuðu ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem skipuð væri á breiðum grunni, en Katrín sagðist sannfærð um að breiddin og ólík sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna þriggja væru kostur, og gæti jafnvel ráðið úrslitum þegar komi að því að skapa samhljóm með þjóðinni þegar leysa þarf úr stórum og erfiðum verkefnum.

Katrín segir að nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarflokkanna snúist um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, efnahagslegar- og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.  

Þakkar framlínufólki í baráttunni við veiruna

Katrín segir að mikinn lærdóm sé hægt að draga af kórónuveirufaraldrinum, og þakkar öllum þeim sem hafa staðið í framlínu baráttunnar við veiruna nú í hátt á annað ár.  Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi verið grundvallaratriði í árangri Íslands gegn faraldrinum. 

Ríkisstjórnin muni áfram leggja áherslu á að draga úr kostnaði sjúklinga og styrkja stöðu Landspítalans og heilbrigðisstofnana um allt land. Þá verði geðheilbrigisþjónusta efld.

Sett verði á fót ný Mannréttindastofnun og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur á kjörtímabilinu. Þá sé mikilvægt að rétta af stöðu örorkulífeyrisþega.   

Loftslagsmálin enn þá fyrirferðarmikil

Katrín segir óumdeilt að loftslagsváin sé stærsta áskorun samtímans. Allar aðgerðir og áætlanir miði að því marki að Ísland verði lágkolefnishagkerfi sem nái kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2040. Ísland eigi að standa fast við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum og gott betur. Því hafi ríkisstjórnin sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun. Þá lýsti Katrín því yfir að þessi ríkisstjórn muni ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.

Aftur á móti verði lokið við þriðja áfanga rammaáætlunar á kjörtímabilinu og stofnaður þjóðgarður á friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu.

Áhersla sé lögð á húsnæðis- og samgöngumál í tengslum við loftslagsmál. Mikilvægt sé að treysta húsnæðisöryggi með nægri uppbyggingu og félagslegum aðgerðum fyrir tekjulægri hópa, fatlaða og eldra fólk, og á sama tíma unnið að breyttum ferðavenjum í þágu umhverfis og loftslags.  

Vill klára breytingar á stjórnarskrá

Annað mál sem er kunnuglegt stef í ræðu forsætisráðherra er stjórnarskrármálið. Katrín segir afar mikilvægt að Alþingi geri breytingu á stjórnarskránni þannig að ný ákvæði, ekki síst um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd, öðlist gildi.  

Katrín lýkur máli sínu á að rifja upp hversu mjög íslenskt samfélag hafi breyst á þeim fimmtán árum sem hún hefur verið á Alþingi. Hún segist ekki vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007, hvað varðar stjórnkerfi, atvinnulíf og samfélag. 

Það sé skylda Alþingismanna, óháð því í hvar þeir standi í pólitík, að leggja sig fram við að bæta hag almennings og tryggja jöfnuð og réttindi allra landsmanna. „Látum það endurspeglast í störfum okkar á nýju þingi og nýju kjörtímabili,“ sagði Katrín að lokum.