„Þetta mjög erfiður tími sem setti mig svolítið aftur á bak í mínu ferli,“ segir Ísabella, trans kona sem var skikkuð til að vera með körlum á gangi í meðferð á Vogi því hún var komin svo skammt á veg í greiningarferli sínu. Reglunum hefur verið breytt en hún og Alexander Laufdal vilja ganga lengra og sjá sérúrræði fyrir hinsegin fólk með fíknivanda.

Alexander Laufdal er 20 ára trans maður og óvirkur fíkill á sér þann draum heitastan að stofna meðferðarúrræði fyrir hinsegin fólk með fíknivanda. Þegar Alexander ákvað að hætta að nota áfengi og vímuefni lagðist hann ekki inn á Vog heldur fór á Teig, fíknigeðdeild Landsspítala, á göngudeild. Þar mæta sjúklingar snemma á morgnana en fara heim um miðjan daginn. Þess á milli var hann á sófanum hjá frænku sinni og vann í sínum bata. Alexander og vinkona hans Ísabella kíktu í Lestina og sögðu frá reynslu sinni sem trans einstaklingar af meðferðarúrræðum á Íslandi og ósk sinni um sérúrræði fyrir fólk í sinni stöðu.

Alexander ákvað að fara ekki á Vog því hann kemur úr trúaðri fjölskyldu. Móðir hans vildi ekki neyða hann á Vog í aðstæður þar sem hvatt er til þess að fara í Tólf spora samtök og trúa á Guð og slíkt. „Mamma vildi ekki setja þá pressu á mig þó ég hafi alveg verið trúaður sjálfur. Hún þekkti til annarra sem höfðu farið á Teig og lærðu í raun læknisfræðilegu hliðina á alkóhólisma. Hún sagði að það væri ábyggilega sniðugast í stöðunni,“ segir hann. „Ég vissi ekkert um meðferðir eða neitt svo ég tók því bara.“

Veldur vanlíðan að tilheyra ekki nógu vel

Alexander tekur það fram að hann hefur ekkert á móti Vogi sem meðferðarúrræði. Þangað hafa margir vinir hans farið og unnið úr sínum málum en í samtali við þá hefur hann áttað sig á vissum vanköntum á meðferðinni - eins og til dæmis þá staðreynd að það er bara kvennagangur og karlagangur en í raun enginn staður fyrir kynsegin fólk eða trans fólk sem enn er á viðkvæmum stað í sínu ferli eins og Alexander kveðst hafa verið á þegar hann fór í sína meðferð. „Ég var bara rétt að byrja á mínum hormónum þannig að í rauninni líffræðilega var ég bara kona með stutt hár í strákafötum. Var ekki búinn að fara í neinar aðgerðir eða neitt þannig að ég hefði persónulega, ef ég lít til baka, ekki viljað vera þar,“ segir hann um Vog. Á þeim tíma hafði nafnabreyting ekki verið lagalega samþykkt svo hann telur líklegast að hann hefði fengið pláss á kvennaganginum. En hann er ekki viss hvort honum hefði á þeim tíma liðið mikið betur á karlaganginum heldur. „Að fá stráka til að taka eftir að ég er ekki eins og þeir, það veldur líka ákveðinni vanlíðan. Að tilheyra ekki nógu vel.“

Akkúrat þessi vanlíðan, að finnast maður ekki tilheyra, verður í mörgum tilfellum til þess að hinsegin fólk leiðist út í fíkn til að byrja með. Rannsóknir á málaflokknum eru takmarkaðar en bandarískir sérfræðingar telja að á bilinu tuttugu til þrjátíu prósent hinsegin fólks glími við slíkan vanda samanborið við níu prósent íbúafjöldans í heild.

Missti ömmu sína og upplifði ofbeldi

Ísabella er 24 ára trans kona og óvirkur alkóhólisti. Hún byrjaði að drekka þegar hún var um sextán ára og kveðst hún hafa snemma lært að hún gæti deyft tilfinningar með áfengi. „Ég missti ömmu mína og það var mikið ofbeldi í kringum mig. Og að vera undir regnboganum og vita ekkert hvernig mér leið og hvað ég væri,“ segir hún um þann tíma í lífi sínu sem hún var í mestri neyslu. „Svo kunni ég ekkert á áfengi svo það leiddi fljótt í annað og tók svolítið hratt yfir.“

Föst með strákunum því það var ekki hægt að sveigja reglurnar

Á þessum árum gerði hún sér ekki grein fyrir að hún væri trans kona. „Þess vegna var mikið af bældum tilfinningum sem meikuðu bara engan sens. Mér fannst ég öðruvísi en allir í kringum mig,“ segir hún. „Með áfengi fannst mér ég geta slakað á og verið partur af hópnum án þess að hafa áhyggjur af því hvernig ég væri að hafa mér og hvað ég væri að segja.“

2018 skráði hún sig sjálf í meðferð á Vogi. „Ég fór sjálfviljug inn og það var skrýtið tímabil. Ég var búin að fá nóg af þessu og mig langaði í annað líf,“ rifjar hún upp. Þá varð hún vör við skiptinguna í ganga, stelpuganginn, strákaganginn og svo bangsadeild fyrir unglinga. Hún þurfti að fara á karlaganginn því hún var ekki búin að breyta nafni sínu og kyni í Þjóðskrá. „Þá var ég föst með þeim því það var ekki hægt að sveigja reglurnar.“

En á þessum tíma hét hún Ísabella og kallaði sig það. Hún gekk um á rauðum silkislopp og fannst hún ekki eiga heima í hópi karlanna á ganginum. „Það var pínu traumatizing að reyna að gera eitthvað í mínum málum en þurfa samt að vera með þeim. Það gerði ekki gott fyrir ferlið sem ég var komin í,“ segir hún.

Fékk stundum leyfi til að vera með stelpunum

Á þeim tíma var Ísabella í svokölluðu greiningarferli sem er orð sem flestir tengja við greiningu á sjúkdómi. Til ársins 2019 skilgreindi Alþjóðaheilbrigðisstofnun það að vera trans sem geðsjúkdóm en nú kveða íslensk lög á um rétt einstaklinga til viðurkenningar á kynvitund þeirra. Greiningarferlið er þó enn fyrir mörgu trans fólki liður í að koma úr skápnum og uppgötva og viðurkenna sitt sanna sjálf en opinbert greiningarferli er líka forsenda ýmissar heilbrigðisþjónustu.

Ísabella komst að því að hún væri trans á meðan hún var í neyslu og greiningarferlið hófst á því að hún fór í viðtal til geðlæknis sem vottaði fyrir að hún væri í raun trans. Þá fékk hún grænt ljós á að komast inn í teymið til að tala við sálfræðing og komast lengra í ferlinu. Svo fór hún inn á Vog sem Ísabella en mátti ekki vera á kvennaganginum. Það var hún ekki sátt við, „og var búin að mótmæla því svolítið við fólkið sem er að finna á Vogi,“ segir Ísabella, en ber þeim þó vel söguna. „Ég fékk leyfi til að sitja með stelpunum á fundinum og í matnum og líka þegar við vorum með fyrirlestra.“

Þegar það voru haldnir litlir fundir með ráðgjafa þurfti hún þó að vera ein með körlunum. Henni fannst hún ekki geta tengt við þeirra reynslu. „Maður var að tjá sig um af hverju maður er þarna og hvað maður ætlar að gera til að bæta sig og það var skrýtið fyrir mig. Að vera þarna í herbergi með fullt af körlum að tala um mín mál sem þeir tengja ekkert við, og þeir eru að tala um sitt sem ég tengdi ekkert við,“ segir Ísabella. En hún gat spjallað við stelpurnar og í matar- og frítímum og fyrir það var hún þakklát. „Annars var þetta mjög erfiður tími sem setti mig svolítið aftur á bak í mínu ferli.“

Fór bara í sturtu þegar allir voru sofnaðir

Sturtuferðir voru meðal annars vandamál því sturtur fyrir hvorn gang voru opnar. Ísabellu leið ekki vel með að fara í karlasturtu ef einhver kæmi inn svo hún sleppti því að nota sturturnar nema einu sinni þegar hún laumaðist inn eftir að allir voru farnir að sofa. Hún ber þó sem fyrr segir starfsfólki Vogs vel söguna og vandinn var ekki endilega fólkið heldur kerfið sem það hrærðist í. Starfsfólkið fann líka stundum leiðir til að gera líf Ísabellu bærilegra. Til dæmis leyfði það henni að vera í silkisloppnum sínum þó það samræmdist ekki reglum og þau lögðu sig fram við að gera dvöl hennar sem þægilegasta. „Allavega stelpurnar sem unnu þarna voru að reyna að taka mig undir sinn væng og fylgjast með að ég væri í lagi. En mér fannst ekkert í lagi þarna,“ segir Ísabella. „Ég var líka að reyna að muna þegar leið á dagana að ég væri þarna til að bæta mig, ekki að eignast vinkonur og vera í gistipartí með einhverjum stelpum.“

Vissu að þetta væri erfitt fyrir Ísabellu og sýndu því virðingu

Henni fannst hún ekki tengja almennilega við neinn og var einmana. Þó segir hún að strákarnir hafi sýnt henni virðingu og aldrei verið leiðinlegir við hana. „Ég man ekki eftir áreiti. Strákarnir voru góðir við mig og fannst ekkert skrýtið að ég væri í herbergi með þeim. Þeir reyndu bara svolítið að hugsa um sig sjálfir,“ segir Ísabella. „Þeir vissu hvað þetta væri erfitt fyrir mig og voru ekkert að kippa sér upp við það eða reyna að gera það verra.“

Datt í það aftur á afmælisdaginn

Það er undarlegt að segja að Ísabella hafi verið heppin að verða ekki fyrir áreiti eða aðkasti á Vogi. Það á auðvitað að vera sjálfsagt, en eins og fram kom í fréttum á minningardegi trans fólks á laugardag hefur þekkt tala yfir myrt trans og kynsegin fólk á einu ári aldrei verið hærri. Eftir því sem trans fólk verður sýnilegra í samfélaginu verða raddirnar sem berjast gegn tilveru þess einnig háværari - og smita út frá sér. Í brothættu umhverfi eins og á Vogi, fullu af fólki í sínu brothættasta ástandi má kannski vona að hver hugsi um sig og láti aðra í friði, en er hægt að treysta á það? Upplifun Ísabellu af starfsfólki og öðrum skjólstæðingum sjúkrahússins var á heildina litið góð.

„Ég allavega eignaðist vini þarna inni og fannst ég hafa staðið mig eins vel og ég hefði getað gert. Á engar slæmar minningar. Man að maturinn var góður og félagslífið gott, við vorum alltaf að teikna á kvöldin saman. Við mynduðum góð tengsl en svo fara yfirleitt allir í sundur,“ segir Ísabella. Hún fór sjálf ekki í eftirmeðferð heldur beint út og var edrú í nokkrar vikur, en á afmælinu sínu í desember datt hún í það og var í því í rúmt ár í viðbót.

Hefja umræðuna og hvetja til aðgerða

Bati er enda sjaldnast bein lína. Hann er ferðalag fram og til baka og mjög stór hluti fólks með fíknivanda þarf á einhverjum tímapunkti að fara aftur á byrjunarreit. Ísabella nýtti sér tólf spora samtök til að komast aftur á beinu brautina eftir að hún féll en segir að í dag færi hún heldur aftur inn á Vog. Í dag fengi hún eftir allt að vera á kvennaganginum en þau Alexander sjá samt enn ástæðu til að þrýst væri á breytingar á Vogi, ekki aðeins fyrir fólk skemmra á veg komið í ferlinu heldur líka fyrir kynsegin einstaklinga.

Alexander bendir á að fíklar séu minnihlutahópur í samfélaginu og hinsegin fíklar þar af leiðandi minnihlutahópur innan minnihlutahóps sem oft gleymist. „Það er kannski ekki að yfirvöld vilji ekki leyst þetta vandamál heldur frekar að þau fatta ekki að þetta sé vandamál,“ segir Alexander. „Mér finnst vera hjá okkur að starfa þessari umræðu svo hægt sé að gera eitthvað í þessu.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Alexander og Ísabellu í Lestinni á Rás 1.