Ingileif Jónsdóttir, doktor í ónæmisfræði segir líklegt að boðið verði upp á bólusetningu barna á næstunni. Beðið er niðurstöðu Lyfjastofnunar Evrópu hvað ráðleggingar í þeim efnum varðar. Það gæti legið fyrir í vikunni. Komi til þess að börn verða bólusett þarf að gera það með öðrum hætti en hjá fullorðnum.
Covid faraldurinn er í talsverðum vexti víða um heim og stjórnvöld hafa gripið til íþyngjandi ráðstafana, t.d. útgöngubanns, skyldubólusetningar og fleiri ráðstafana. Í Frakklandi og Hollandi eru blóðugar óeirðir vegna þessa og meira að segja hér á landi er rætt um skyldubólusetningu eða að óbólusettir sæti meiri takmörkunum en bólusettir.
Rannsóknir sýna mikla vörn hjá börnum
Og nú eru Kanada, Ísrael og Bandaríkin byrjuð að bólusetja börn frá 5-11 ára en Evrópska sóttvarnarstofnunin er að skoða hvort hún ætli að heimila það innan Evrópu. Miklar vonir eru bundnar við að örvunarskammturinn svokallaði muni mynda hjarðónæmi en þátttaka hér hefur verið minni en vonast var til. Ingileif Jónsdóttir doktor í ónæmisfræði og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ræddu um þessi mál í Kastljósi í kvöld.
Ingileif segir að klínískar rannsóknir í Bandaríkjunum sýni að vernd gegn COVID-19 er 90 prósent. Yngri börn sem fá ekki nema þriðjung af skammtinum sem ungt fólk og fullorðnir sýna meira ónæmissvar en þeir sem eldri eru.
Í niðurstöðunum kemur einnig fram að enginn þeirra 2.600 barna sem tóku þátt í rannsókninni fékk alvarlegar aukaverkanir, svo sem hjartavöðvabólgu eða gollurshússbólgu.
Reyna að vinna óbólusetta á sitt band
Ragnheiður Ósk segir að ef til þess kemur að bólusetningar barna hefjast hér á landi verður framkvæmdin ekki eins og nú er gert, í stórum hópum eins og í Laugardalshöll. Við bólusetningu barna þarf að huga að því að hafa meira næði.
Hvað varðar þátttöku í örvunarbólusetningum segir hún stílað sé inn á að ná til óbólusettra með ýmsum ráðum, eins og að keyra út bóluefnið þar sem fólk er við störf eða annað slíkt. Algengast sé að ungir karlmenn á aldrinum 18-49 ára hafi ekki látið bólusetja sig. Þá séu erlendir verkamenn einnig stór hópur þeirra sem ekki hafa látið bólusetja sig. Þá eru einnig uppi hugmyndir um að bjóða upp á bólusetningar á landamærunum.
Tilmæli til þungaðra kvenna eru þau að þær mæti í örvunarbólusetningu eftir þriggja mánaða meðgöngu. Ástæða þess að konur eiga ekki að mæta fyrr segir Ragnheiður að sé vegna þess að ein aukaverkun bóluefnisins sé hiti í kjölfar bólusetningar. Það sé ekki æskilegt fyrir þungaðar konur á fyrri stigum meðgöngu.
Vona að ekki þurfi að grípa til skyldubólusetningar
Kári Stefánsson sagði á dögunum að honum finnist æskilegt að taka upp skyldubólusetningu hér á landi. Ingileif og Ragnheiður voru sammála um að það ætti að vera neyðarúrræði frekar en nokkuð annað. Ingileif segir það vera samfélagslega skyldu að láta bólusetja sig, ekki bara gagnvart sjálfum sér heldur líka gagnvart öðrum hópum fólks í samfélagi.
„Ef fólk sér ekki mikilvægi þess fyrir samfélagið að taka þátt í þessu mikilvæga átaki sem hefur sýnt sig að hægt er að nýta til að útrýma smitsjúkdómum. Við höfum útrýmt bólusótt, við erum langt komin með að útrýma pólió (innskot: mænusótt/lömunarveiki). Hvernig er það gert? Með stórfelldu bólusetningarátaki þar sem allir taka þátt og fólk er ekki bara að hugsa um sjálft sig, það er líka að hugsa um hina. Ef ekki er hægt að höfða til skynsemi fólks hvað þetta varðar þá finnst mér íhugandi að setja skyldu en ég myndi kjósa að fara aðra leið.“ sagði hún.
Ragnheiður segist trúa því að ekki þurfi að grípa til bólusetningarskyldu. Viðhorf fólks hér á landi til bólusetninga sé almennt gott.