Í kringum tíunda janúar gæti takmark sóttvarnayfirvalda náðst um 30-40 dagleg innanlandssmit, segir Thor Aspelund líftölfræðingur. Toppi bylgjunnar hefur enn ekki verið náð.
Þrátt fyrir að ívið færri smit hafi greinst innanlands um helgina, eða 112 í gær og 133 í fyrradag samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum, er faraldurinn enn í hægum veldisvísisvexti, þetta segir Thor Aspelund, líftölfræðingur sem reiknaði þróun bylgjunnar fyrir fréttastofu.
„Þessi vöxtur hegðar sér ótrúlega stærðfræðilega, þetta fylgir hægum veldisvísisvexti, þar sem veldisvísirinn sjálfur er lág tala, en hægur upp á við og heldur áfram að vera í þeim takti út þessa viku,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Erum við ekki búin að sjá toppinn á bylgjunni? „Nei við erum ekki búin að sjá toppinn.“
Thor segir að það geti tekið tíu daga til viðbótar að sjá skýr merki þess að bylgjan sé á niðurleið, en vísbending um fækkun smita gæti komið í ljós eftir um viku. „Þannig í lok næstu viku ættum við vonandi að fara að sjá merki þess að þessar tölur séu staðfastlega að verða lægri.“
Það er rúm vika síðan ríkisstjórnin ákvað að herða sóttvarnaaðgerðir og miða fjöldatakmarkir við 50 í stað 200. Ættu þær aðgerðir ekki að vera farnar að hafa áhrif á smittölur? „Þessi vöxtur hefur fengið að vera í svo langan tíma, kannski tekur þetta aðeins lengri tíma að snúa við núna, maður veit ekki, maður er svolítið að geta sér til. En ég hef trú á því að við förum að sjá það í lok næstu viku.“
Markmið sóttvarnayfirvalda er að ná smitum niður í þrjátíu til fjörutíu á dag, sem er talið viðráðanlegt fyrir heilbrigðiskerfið. Hvenær er hugsanlegt að það takmark náist? „Miðað við reynsluna ætti það að vera jafnvel inn í janúar, tíunda kannski, fyrsta aðra viku í janúar þar sem við förum að sjá þessar tölur í kringum fjörutíu ef að hegðunin er svipuð og hefur verið.“