Óbólusettir covid-sjúklingar sem liggja á Landspítalanum eru einkum ungir karlmenn, erlent verkafólk og yfirlýstir andstæðingar bólusetninga. Yfirvöld reyna að ná sérstaklega til þeirra sem hafa síður aðgang að bólusetningu í heimalandi sínu. 

Síðan fjórða bylgja braust út í ágúst hefur hlutfall innlagðra sjúklinga sem eru bólusettir verið hærra en óbólusettra, þangað til a miðvikudag. Þá urðu óbólusettir, samkvæmt upplýsingum frá Landspítala. Verkefnisstjóri farsóttarnefndar segir að það þurfi að taka þessum tölum með fyrirvara, þær breytist hratt dag frá degi. „Þetta eru svo litlar stærðir. Það þarf svo lítið til þess að hreyfa tölurnar verulega mikið til,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar LSH.

Í þessari bylgju hafa rúmlega 190 þurft sjúkrahúsinnlögn, um 40% þeirra óbólusettir. „Þessi óbólusettu eru fulltrúar fyrir svo lítinn hóp. Það er frekar það sem við þurfum að horfa á og hvernig þessi óbólusetti hópur er samsettur,“ segir hún.

Óbólusetti hópurinn skiptist í þrennt segir Hildur, það eru ungir karlar bæði íslenskir og af erlendum uppruna sem hafa ekki komið því í verk að mæta í bólusetningu. „Og svo eru auðvitað í þessum hópi einn og einn sem er á móti bólusetningum, jafnvel bara trúir ekki á covid. Þeir veikjast líka.“

Heldur þú að þau séu fylgjandi bólusetningum eftir að þau veiktust? „Ég held að það sé allur gangur á því.“ Fréttastofu er kunnugt um Íslendinga sem hafa á samfélagsmiðlum lýst andstöðu við bólusetningar og hampað öðrum aðferðum gegn veirunni, en veikst alvarlega og þurft að leggjast á sjúkrahús. 

Hafa skoðað bólusetningu á landamærunum

Þriðji hópurinn sem þarf að leggjast inn og er óbólusettur er fólk sem kemur frá útlöndum til að vinna hér á landi.  „Sem ýmist hefur verið búsett hér jafnvel til lengri tíma eða er að koma til vinnu í stuttan tíma og er ekkert endilega á móti bólusetningum en hefur ekki haft aðgang að þeim í sínu heimalandi og veit ekki hvernig það á að fá bólusetningu hér, þar er auðvitað verk að vinna,“ segir Hildur.

„Það er búið að skoða það hvort að það sé hægt að bólusetja eða bjóða bólusetningu á landamærunum. Það eru ákveðin vandamál í því, út frá viðkvæmninni í bóluefninu, hvernig við eigum að blanda og geyma það og annað slíkt og það er svolítið snúið,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna.

„En við erum að reyna að ná til þeirra með ýmsum hætti og tengiliði sem við höfum í þessu samfélagi. Meðal annars er í átaksverkefni sem við höfum verið að skoða í sambandi við ósamþykkt íbúðarhúsnæði. Þar er verið að dreifa upplýsingum um bólusetninguna og benda þessum einstaklingum á það að hún bjóðist hér ókeypis,“ bætir Víðir við.