Til stendur að skera niður í rekstri Akureyrarbæjar um nokkur hundruð milljónir. Ein af þeim tillögum sem ræddar hafa verið í bæjarstjórn er að loka annarri sundlaug bæjarins almenningi. Fastagestur skorar á bæjarfulltrúa að kynna sér starfsemi laugarinnar.
Æla sér að ná sjálfbærni í rekstri á fimm árum
Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar til næstu þriggja ára fór fram í dag. Til að stemma stigu við miklum hallarekstri setti bæjarstjórn sér markmið um að hagræða um tæplega 400 milljónir á næsta ári og því ljóst að víða þarf skera niður. Til samanburðar voru heildartekjur bæjarins áætlaðar tæpir 25 milljarðar á þessu ári. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar segir að hverjum steini verði velt. „Verkefnið er í raun löngu hafið, við byrjuðum í fyrra með fjárhagsáætlun þá að setja fram áætlun til fimm ára að ná sjálfbærni í rekstri,“ segir Halla.
Hvaða verkefni eru þetta sem þið þurfið að fara í?
„Við erum bara í sjálfu sér að velta hverjum steini við en við erum í raun á sama tíma að verja töluvert auknum fjármunum í ákveðin verkefni. Við erum t.a.m. að bjóða upp á leikskólapláss niður í 12 mánaða aldur, sem auðvitað kostar.“
Loka mögulega annari sundlaug bæjarins
Ein af þeim tillögum sem komið hafa fram til að spara peninga og þykir líkleg til framkvæmdar er að loka annarri sundlaug bæjarins, Glerárlaug, almenningi. Margrét Kristjánsdóttir, fastagestur laugarinnar í um tuttugu ár skorar á bæjarfulltrúa að endurskoða þær áætlanir. „Hér eru bara viðkvæmustu hóparnir sem mæta hér í þessa laug og vilja bara ekkert vera neins staðar annars staðar. Ég myndi nú bara benda þeim á kannski að koma bara í Glerárlaug og vita hvaða starfsemi ger hérna fram. Því að ég er alveg viss um að margir þeirra hafa aldrei komið hingað og vita bara ekkert hvernig þetta lítur út hérna,“ segir Margrét.
Þannig að þeim er hér með boðið í pottinn?
„Akkúrat, ef þeir bara vilja, koma klukkan fimm, alla virka daga.“