Forðast þarf þvingunaraðgerðir gagnvart óbólusettum í lengstu lög segir læknir og dósent í hagrænni siðfræði. Skapa þarf almennt traust og samstöðu, ekki að draga línu og þar með kljúfa þjóðina.
Mikil átök og heit umræða
Ástríður Stefánsdóttir læknir og dósent í hagnýtri siðfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands segir að það sé ekki undarlegt að mikil átök og heit umræða sé um þvingunaraðgerðir ýmissa Evrópuríkja gagnvart þeim sem vilja ekki láta bólusetja sig gegn Covid 19. Þarna sé tekist á um annars vegar frelsi einstaklingsins og hins vegar almannahag.
Óbólusettir bera ekki einir uppi bylgjuna
Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði í Speglinum í gær að henni fyndist koma til greina einhverjar takmarkanir á óbólusetta, ef faraldurinn héldi áfram að vaxa.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í hádegisfréttum í dag að ekki væri hægt að segja að það væru eingöngu óbólusettir sem bæru upp þessa bylgju. „Við þurfum hins vegar að sjá hvað gerist núna eftir að við gefum þennan örvunarskammt. Hvort að við fáum mjög góða vernd, bæði gegn smiti og dreifingu og alvarlegum veikindum. Ef við sjáum það þá getum við farið að hugsa um hvort að þeir sem hafa fengið örvunarskammt sleppi þá við einhverjar takmarkanir" sagði Þórólfur.
Hugnast ekki austurríska aðferðin
Í Austurríki eru óbólusettir í útgöngubanni og þurfa halda sig að mestu heima hjá sér. Ástríði Stefánsdóttur hugnast ekki aðgerðir austurrískra stjórnvalda og telur þær ekki við hæfi hér á landi.
„Þetta er flókið mál og það er að mörgu leyti skiljanlegt að þau skuli grípa til þessara aðgerða. Ef við reynum að setja fram stóru myndina í þessu efni þá erum við annars vegar með frelsi einstaklingsins og yfirráð einstaklingsins yfir eigin líkama. Og svo erum við hins vegar með ákveðna mjög sterka almannahagsmuni og almannahag. Og þetta er að takast á" segir Ástríður.
Varúðarljós blikka
„Það er gríðarlega mikilvægt að fá góða þátttöku í bólusetningu. Þeir sem eru óbólusettir geta beinlínis ógnað öryggi þeirra sem eru bólusettir að því leyti að þeir geta fengið Covid og veikst og jafnvel lent inn á spítala.
Þannig að það er ekkert skrýtið að það sé heit umræða og mikil átök um þetta. En það er líka erfitt að grípa til þessara hörðu aðgerða. Það er margt í okkar menningu og okkar siðareglum sem gera það að verkum að varúðarljós byrja að blikka".
Ekki hægt að þvinga fólk í læknismeðferð
„Í fyrsta lagi er aldrei hægt að þvinga læknismeðferð upp á nokkurn mann. Það er mjög mikilvægur réttur að við höfum vald yfir okkar eigin líkama og við ráðum því hvað er sprautað inn í okkur og getum dregið þar ákveðna línu. Það er mjög mikilvægt". Hún bætir þó við að í berklameðferð hafi verið lagalega heimilt að þvinga sjúklinga í lyfjameðferð og loka þá af til þess að þeir smiti ekki.
Ekki spurnig um með eða á móti
Hún segir slæmt ef grípa þurfi til sóttvarnarreglna sem beinlínis kljúfi þjóðina. Henni hugnast ekki sú leið sem Austurríkismenn hafa farið með útgöngubanni á óbólusetta.
„Við eigum að forðast að setja þetta upp í svona einhverskonar tvíhyggjusýn, með eða á móti. Það er aldrei lausn falin í því. Ef tökum t.d. aðgerðirnar í Austurríki, sem eru býsna harðar, þá er ekki gengið svo langt að það sé þvingunarbólusetning. Heldur er þetta þannig að línan er dregin með því að fólk hefur ekki aðgang að hinu og þessu".
Ekki kljúfa þjóðina
„Leiðin fram á við og grundvöllurinn til að hugsa þetta er að skapa almennt traust og að vinna með samstöðu og traust. Það er sú leið sem ég held að verið sé að vinna með hér á Íslandi. Ekki að fara að draga línurnar, skerpa þær og pólarísera þær. Þetta er orðið mjög slæmt þegar þú þarft að fara þá leið eins og Austurríki er að gera. Það er mjög slæmt að þurfa að kljúfa upp þjóðina" segir Ástríður Stefánsdóttir.
Hægt er að hlusta á umfjöllunina og ítarlegra viðtal við Ástríði í spilaranum hér fyrir ofan.