Rætt hefur verið á ríkisstjórnarfundum að harðari sóttvarnaaðgerðir verði látnar ganga yfir þá sem kjósa að þiggja ekki bólusetningu við kórónuveirunni. Forsætisráðherra segir að að slíku fyrirkomulagi myndu fylgja ýmis siðferðileg álitamál og það gæti haft áhrif á samstöðu í faraldrinum.  

 

Í mörgum nágrannalöndum hefur verið farin sú leið að þeir sem kjósa að láta ekki bólusetja sig við COVID-19 sæta meiri takmörkunum en þeir bólusettu til að hemja faraldurinn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að gæfi örvunarskammturinn góða raun, þá mætti skoða að sleppa fólki sem hefði fengið þann skammt við einhverjar takmarkanir.

Segir óbólusetta takmarka möguleika annarra

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að þá leið megi skoða. „Ég hef alveg orðað það hvort við ættum að horfa til fyrirmynda í Danmörku. Þar sem menn nota svokallaðan kórónupassa til að - þeir sem eru fullbólusettir hafa frjálsari möguleika til að taka þátt í samfélaginu. Vegna þess að það eru þeir óbólusettu sem takmarka möguleikana til þess.“

Fyndist þér það koma til greina? „Mér fyndist alveg koma til greina að skoða slíka hluti.“
Hefurðu viðrað þessa hugmynd á ríkisstjórnarfundi? „Já, ég hef rætt þetta öðru hvoru.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þessu fyrirkomulagi myndu fylgja ýmis álitamál. „Siðferðileg og pólitísk álitamál. Við höfum, sem ríki sem aðhyllist ákveðið frjálslyndi í þessum málum, gefið fólki þennan valkost en hins vegar lagt á það áherslu að bólusetningin skipti verulegu máli,“ segir Katrín.

„Til þess að tryggja þessa samstöðu í samfélaginu, sem er svo mikilvæg fyrir samfélag af okkar gerð, höfum við haft eina reglu fyrir alla hér innanlands.“