Varðskipið Týr er komið í höfn eftir síðustu sjóferð sína fyrir Landhelgisgæsluna. Mikil átök fylgja sögu þessa skips og sigur í síðasta þorskastríðinu þegar fiskveiðilögsagan hafði verið færð út í 200 mílur.

Varðskipið Týr hefur verið í siglingum í tæpa hálfa öld og oftar en ekki hefur skipið komist í hann krappan á þeim tíma. Bresk herskip sigldu margsinnis á skipið og mátti á stundum litlu muna að mjög illa færi. 

Varðskipið Týr kom til Reykjavíkur í fyrsta sinn tuttugasta og fjórða mars 1975. Týr var þá fullkomnasta skip Íslands og jafnframt það dýrasta. Skipið kostaði um einn milljarð króna komið til landsins. Týr klippti á togvíra um átta togara árið 1976. Skipið var einnig sent á vettvang til Súðavíkur eftir eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar 1995 með björgunarsveitir, lækna, slökkviliðsmenn og leitarhunda.

Skipið hefur alls dregið rúmlega 100 skip til hafnar. Þá bjargaði áhöfn Týs 360 flóttamönnum þegar flutningaskipið EZADEEN var dregið vélarvana til hafnar á Ítalíu í ársbyrjun 2015. Síðasta sjóferðin var mun rólegri.

Eiríkur Bragason var skipherra í síðustu ferð Týs fyrir Landhelgisgæsluna

 „Þetta er náttúrulega búið að bara markað landhelgissöguna frá upphafi frá því að þetta skip kemur sko og átti bara gríðarlega stóran þátt í hvernig þetta fór og stóð sig alveg með prýði og áhöfnin sem verið hefur hér frá upphafi.“

Týr verður væntanlega seldur nú þegar hann hefur lokið störfum fyrir Landhelgisgæsluna. Eiríki finnst eftirsjá að skipinu.

 „Mér skilst að þetta sé í einsk konar söluferli en það er bara synd ef það á að fara að leggja honum og þá nátttúrulega bara grotnar þetta niður sko.“

  Auðunn Kristinsson er framkvæmdastjóri siglingasviðs Landhelgisgæslunnar.

„Það má segja að það sé hálfgerð synd. Þessu skipi hefur verið haldð mjög vel við en aftur á móti er vélbúnaður og annað farið að gefa sig þannig að þetta er bara barn síns tíma. Hefur ekki sömu getu í dag þannig að nú er komið að þessum tímamótum.“

Varðskipið Freyja tekur við starfi Týs.