Óbólusettir eru þungur baggi á heilbrigðiskerfinu hér á landi segir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hátt í sjö þúsund manns mættu í Laugardalshöll í þriðju sprautu á fyrsta degi örvunarbólusetningar.
68% boðaðra mættu í þriðju sprautu
Það var ys og þys í Laugardalshöll í Reykjavík í dag þegar fyrsti boðaði hópurinn kom í örvunarbólusetningu - fékk þriðja skammtinn af bóluefni gegn Covid. Alls voru 9.700 boðuð í bólusetningu. 6.615 mættu eða um 68%. Í fyrsta hópnum í dag voru sextugir og eldri og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
10 þúsund boðaðir á dag á höfuðborgarsvæðinu
Næstu fjórar vikur verða tæplega tíu þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu boðaðir á dag - á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum - í Laugardalshöll í þriðju sprautu. Fyrirkomulag annars staðar á landinu er í mótun.
Áhrif óbólusettra á alvarleika smita
En hversu mikilvæg er þessi örvunarsprauta fyrir hvern og einn og fyrir heildina? Og hvað með þá sem hafa ekki þegið bólusetningu yfirhöfuð - 10% mannfjöldans? Hvaða áhrif hafa þeir á útbreiðslu og alvarleika smita og á heilbrigðiskerfið?
Spegillinn ræddi í dag við Sigríði Dóru Magnúsdóttur framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Íþyngjandi fyrir heilbrigðiskerfið
Hún segir að óbólusettir séu þungur baggi á heilbrigðiskerfinu. Um 10% landsmanna eru óbólusett, en um helmingur covid-innlagna á sjúkrahús er vegna þeirra sem ekki hafa bólusett sig.
„Það skapast náttúrulega vandræði af þessum hópi því hann er miklu meira íþyngjandi fyrir heilbrigðiskerfið" segir Sigríður Dóra. „Þetta fólk er að veikjast. Af innlögðum eru þeir um það bil helmingur af þessum erfiðu smitum. Þannig að þeir eru þungur baggi á kerfinu. Þeir eru líka meira smitandi. Þeir bera smit meira á milli.
Við myndum mjög gjarnan vilja ræða við þennan hóp til að útskýra fyrir honum forsendur, þannig að menn taki nú upplýsta ákvörðun um það að fara í bólusetninguna".
Þarf að skoða hvort grípa þurfi til aðgerða
En kemur til greina að grípa til aðgerða gagnvart þessum hópi, líkt og gert hefur verið í Austurríki, Hollandi, Berlín og víðar?
„Nú er það ekki beint á mínu borði" segir Sigríður Dóra. „En núna erum við að fást við breytt veiruafbrigði þannig að þess vegna var mikilvægt að ná að bólusetja gegn því til að ná upp góðri vörn. Ég held hins vegar að ef þetta gengur ekki og að áfram verði lítill hópur sem verði íþyngjandi og er að bera smitið, þá finnst mér alveg sjálfsagt að það þurfi að skoða það betur" segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild í spilaranum hér að ofan.