Enn eitt kórónuveirusmitametið var slegið í gær en þá greindust 178 með smit og hafa ekki verið fleiri frá upphafi faraldurs á einum degi. Þórólfur Guðnason segir að það styttist í að þurfi að herða sóttvarnareglur ef þetta heldur áfram svona.
Alltof mörg smit
Þórólfi líst illa á svona háar smittölur dag eftir dag:
„Þetta eru alltof mörg smit þannig að við ráðum illa við það. Í fyrsta lagi þá vitum við að tvö prósent munu þurfa á spítalaþjónustu að halda“ segir hann.
Átján sjúklingar inni á spítölunum
Nú liggja þrír á gjörgæsludeild á Landspítalanum með covid, allir í öndunarvél. Samtals liggja 15 covid sjúklingar á spítalanum, fimm þeirra eru óbólusettir. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri liggja þrír covid sjúklingar þar af einn á gjörgæslu. Þeir sem eru bólusettir veikjast ekki eins mikið, segir Þórólfur, og því staldra þeir skemur við en óbólusettir á spítölunum.
Þungt hjá eftirliti, rakningu og farsóttarhúsum
„Þessi mikli fjöldi hann er að setja úr lagi bæði eftirlitið hjá covid göngudeildinni, hann er að setja úr lagi rakninguna hérna hjá rakningateyminu, hann er að setja úr lagi þjónustuna á farsóttarhúsunum, þar er allt að fyllast.“
Ekkert annað að gera en herða ef heldur svona áfram
Ætlarðu að leggja þetta til harðari aðgerðir?
„Já, það náttúrulega fer að styttast í það ef að þetta ætlar að vera svona og ég sé hvernig okkur er að takast að halda utan um þetta þá er í raun og veru ekki neitt annað fyrir mig að gera heldur en að leggja eitthvað slíkt til.“
Meira en helmingur utan sóttkvíar
Smitin eru um allt land, flest á höfuðborgarsvæðinu, segir Þórólfur, og allt er þetta sambland af hópsmitum. Meira en helmingur þeirra 178 sem greindust í gær var ekki í sóttkví eða 96 manns. Nú eru 1353 með covid á landinu samkvæmt covid.is.
Landspítalann sárvantar hjúkrunarfólk
Landspítalinn óskað í gær sérstaklega eftir liðsinni fólks með bakgrunn í geðheilbrigðisþjónustu því inniliggjandi sjúklingur á geðdeild greindist með covid og því þurfti nokkrir starfsmenn í sóttkví.
„Við höfum aðeins fengið fólk inn á bakvarðalistann vegna þess ákalls en við myndum þiggja meira. Við erum alveg í lagi næstu vaktir en þetta verður náttúrulega áframhaldandi verkefni því það fóru margir starfsmenn í sóttkví. Þannig að við þurfum áfram á því að halda að styrkja þá mönnun,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Mesta þörfin er á hjúkrunarfræðingum því þá vantar líka á covid deildir og sérstaklega hjúkrunarfræðinga með gjörgæsluhæfni.
Enn erfitt í skólum á Akranesi vegna mönnunar
Enn greinast smit á Akranesi eftir hópsmitið sem rekja má til skemmtistaðarins Gamla kaupfélagsins 30. október. Það var viðbúið, segir Sævar Helgi Þráinsson bæjarstjóri, enda margir í sóttkví að greinast. Skólar eru opnir en færri starfsmenn vegna sóttkvía og smita. Öllu viðburðahaldi í bænum hefur verið slegið á frest.
Hertu reglurnar gilda til 8. desember að óbreyttu
Frá miðnætti mega 500 manns koma saman en allt 1500 í hverju sóttvarnahólfi á viðburðum en þá verða gestir að framvísa neikvæðu hraðprófi. Þá var afgreiðslutími vínveitingastaða styttur um tvær klukkustundir og eiga þeir að loka klukkan ellefu og rýma staðinn fyrir miðnætti. Þar sem fólk situr til borðs þarf að skrá gesti. Auka þessa tók grímuskylda gildi á laugardaginn. Reglurnar gilda til 8. desember að öllu óbreyttu.