Íslenskir vindar leika um Aþenu þessa dagana því grísk-íslenska listahátíðin Head 2 head hófst þar um síðustu helgi. Þar taka höndum saman listamannarekin rými beggja landa, fyrst þar og svo hér á landi haustið 2023.
Á hátíðinni sýna alls 44 íslenskir myndlistarmenn í 11 rýmum sem öll eru rekin af listamönnum. HEAD 2 HEAD er samstarfsverkefni Kling & Bang og A - DASH sýningarrýmisins í Aþenu og leitast að sögn skipuleggjenda við að búa til nýjar tengingar, möguleika og sambönd landanna á milli. „Það er einhver þráður sem tengir þessa tvo hópa vel. Allt sjálfsprottið og fólk sem skilur þessa ástríðu fyrir listinni sem allt snýst um,“ segir Hekla Dögg Jónsdóttir, einn listamannanna sem verk eiga á hátíðinni.
Vitum ekkert hvað verður
Að sögn Evu Ísleifsdóttur, listamanns og eins skipuleggjenda var markmiðið einfalt: „Okkur langaði að leyfa listamönnum sem búa í Grikklandi og listamönnum sem búa á Íslandi að vinna saman og búa til sýningar saman.“
Elísabet Brynhildardóttir skipuleggjandi og listamaður segir skýra speglun milli landa á þessu sviði. „Það sem þessar tvær listasenur eiga sameiginlegt er að vera mikið drifnar áfram af listamannarekinni senu. Listamannaframtakið spilar stóra rullu í því hvernig listasenan er. Við erum búin að tefla saman ákveðnum listamönnum og ákveðnum rýmum og við vitum ekkert hvað verður úr því. Það er það sem er spennandi.“
Rölti um á Google maps
Meðal þeirra listamanna sem sýna á Head 2 Head er Hildigunnur Birgisdóttir, en hún sýnir í rýminu PS: Communitism. „Þetta eru listamannarekin rými, þetta er eins og Pálínuboð, það mæta allir með sitt á borðið,“ segir hún. Í aðdraganda sýningarinnar kynnti hún sér borgina gegnum netið og sótti innblástur. “Ég fór sem sagt á Google maps því það var eina leiðin fyrir mig til að vera í Aþenu. Ég „rölti" hér um göturnar á internetinu, það eru nágrannar hér hinum megin við götuna sem eru með frábæra verslun. Það eru 50 ljósmyndir úr versluninni á internetinu og ég fór að vinna ljósmyndir upp úr þessari verslun,“ segir hún.
Fjölmennur hópur þátttakenda
Auk Hildigunnar, Elísabetar, Heklu Daggar og Evu sýna eftirfarandi listamenn á Head 2 head; Almar Atlason, Alexandra Saliba, Andreas Brunner, Anastasis Palagis Meletis, Anna Papathanasiou, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Eleni Papazoglou, Erling Klingenberg, Florence Lam, Giorgos Tserionis, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Konstantinos Kotsis, Konstantinos Yiotis, Kosmas Nikolaou, Logi Leó Gunnarsson, Nikulás Stefán Nikulásson, Petros Papanas, Ragnar Kjartansson, Rakel McMahon, Rebecca Erin Moran, Sara Riel, Selma Hreggviðsdóttir, Sigurður Atli Sigurðsson & Leifur Ýmir Eyjólfsson (Prent og Vinir), Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Styrmir Örn Guðmundsson, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Sigurður Ámundason, Una Margrét Árnadóttir, Una Björg Magnúsdóttir, Ólöf Helga Helgadóttir, Örn Alexander Ámundason, Vasilis Zarifopoulos, Vaskos, Yorgia Kariti og Yorgos Yatromanolakis.
Mun vaxa og dafna
Að sögn Ingibjargar Davíðsdóttur, sendiherra Íslands í Grikklandi með aðsetur í Osló, þótti hugmyndin kraftefnileg strax í byrjun. „Þetta verkefni kom fyrst á mitt borð 2019 og ég kolféll fyrir hugmyndinni. Þetta eru bara upphaf tengsla sem eru að verða til hér og þau munu bara vaxa og dafna, því fagna ég heilshugar,“ segir hún.
Hátíðin stendur til 14. nóvember. Hana má kynna sér nánar hér og hér.