Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það óvenjulega stöðu á síðustu tímum að engin óvissa sé um ríkisstjórn og meirihluta hennar að loknum þingkosningum. Fyrir liggi langtímastefnumótun, sem sé önnur staða en að vera í algjörri óvissu um komandi tíð. Ný stjórn verði líklega ekki kynnt fyrr en niðurstaða liggur fyrir í Norðvesturkjördæmi.
Katrín var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún er nú í Glasgow í Skotlandi þar sem hún situr loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP 26, ásamt fleiri þjóðarleiðtogum. Þar eru einnig Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, er einnig í útlöndum. Hann situr þing Norðurlandaráðs sem hefst í Kaupmannahöfn í dag.
Katrín sagði í samtali við Morgunútvarpið að verkefni ráðherranna ytra hafi ekki endilega mikil áhrif á stjórnarmyndunarviðræður, sem hafa nú tekið um fimm vikur. Uppi sé sú óvenjulega staða á síðari tímum að stjórnarmeirihluti haldi á milli kosninga. „Það gerir það að verkum að það er engin óvissa um ríkisstjórn og meirihluta,“ sagði Katrín.
„Af því að þessi ríkisstjórn hélt meirihluta sínum þá er auðvitað fyrirliggjandi langtímastefnumótun, þannig að þetta er önnur staða en ef við værum í raun og veru með algjöra óvissu um hvað tekur við“.
Enn verður þó einhver bið á að ný ríkisstjórn verði kynnt. Auk þess sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar sinna nú verkefnum erlendis verður að bíða niðurstöðu rannsóknar undirbúningskjörbréfanefndar á niðurstöðu kosninganna í Norðvesturkjördæmi. „Það er auðvitað bara eitthvað sem allir þurfa að sætta sig við að þarf að ljúka. Það er ekki hægt að kalla þing saman til þess að ræða fjárlög eða neitt annað fyrr en því er lokið,“ sagði Katrín í Morgunútvarpinu í morgun.