Guðmundur Baldursson stjórnarmaður í Eflingu segir að hann hafi ekki fengið upplýsingar frá stjórnendum Eflingar þegar hann leitaði eftir þeim. Hann segist eingöngu hafa verið að ganga eftir upplýsingum sem hann hafi haft rétt á sem stjórnarmaður í félaginu
„Það er ákveðin skylda lögð á stjórnarmenn í Eflingu að fylgjast með hvað er að gerast og fá svör. Ef þú færð ekki svör þá leitar þú eftir þeim", sagði Guðmundur í Kastljósi í kvöld.
Hann óskaði eftir upplýsingum í kjölfar þess að einum starfsmanni var sagt upp störfum hjá félaginu. Þær upplýsingar fékk hann ekki. Hann vildi einnig fá upplýsingar um starfslokasamning sem gerður var við skrifstofustjóra sem var sagt upp störfum.
„Ég komst síðar að því eftir öðrum leiðum að gerðar hafi verið við hana 9 mánaða starfslokasamningur og þar á undan var hún búin að vera í 3 mánuði í veikindaleyfi. 9 mánuðir í starfslokasamning hjá verkalýðsfélagi eftir tveggja ára starf þykir nokkuð ríflegt."
Hann neitar því að hann gangi erinda einhverra stjórnmálaflokka. Hann segist eingöngu vera að fara eftir lögum sem honum beri að gera það er að fylgja eftir því að ekki sé verið að gera óþarflega langa starfslokasamninga.
Guðmundur segist hafa lagt til að leitað yrði að utanaðkomandi aðstoð til að leysa deilur.
„Það skiptir svo miklu máli að starfsfólk sé ánægt og öruggt í vinnu, það má segja að þetta sé beinagrind verkalýðsfélagsins. Að allir starfi þar með góðu til þess að geta þjónað þessu fólki sem er í Eflingu. Það er fyrir neðan allar hellur að fólk mæti í vinnu með hnút í maganum eins og eitthvað af þessu fólki hefur sagt. Það bara gengur ekki. Það sér það hver maður." Guðmundur segir að margt hafi verið gert vel á skrifstofunni frá því að Sólveig Anna varð formaður. "
„Eins og kom fram á fundinum á sunnudag þá voru þar 2 stjórnarmenn sem lögðu það til að mér yrði komið út úr stjórn Eflingar og öll embætti tekin af mér. Það er bara þeirra sýn á þetta. Ég var eingöngu að sækjast eftir því sem ég á rétt á og svo verður bara hitt að koma í ljós." Guðmundur segir að ábyrgð varaformannsins sé ekki minni en Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar. Hann lítur svo á að Agnieszka Ziółkowska eigi einnig að segja af sér.
„Framhaldið hlýtur að vera í höndum trúnaðarráðs sem er æðsta afl verkalýðsfélagsins. Það sér það hver maður að þetta getur ekki gengið svona", sagði Guðmundur Baldursson í Kastljósi í kvöld