Gamalt og hrörlegt víkingaskip er strandað við Eskines við Gálgahraun, skammt frá Bessastöðum. Fréttastofa RÚV fór á stúfana og kannaði hvaða skip þetta væri. Þetta reyndist vera víkingaskip sem var smíðað í Brasilíu og hafði verið siglt til Íslands frá Trínidad og Tóbagó fyrir sex árum. Til stóð að nota það til að sigla með ferðamenn en ekkert varð úr þeim áformum.

Í fyrstu áttuðu fréttamenn sig ekki á því hvaða skip það væri sem var strandað við Eskines. Starfsfólk hjá Vaktstöð siglinga og Hafnarfjarðarhöfn höfðu ekki heyrt af málinu.

Forsetaritari kom af fjöllum

Fréttastofa hafði einnig samband við Sif Gunnarsdóttur, ritara forsetaembættisins, til að kanna hvort starfsmenn á Bessastöðum hefðu  orðið varir við skipið og vissu deili á því. Svo var ekki.

Eftir smávegis grúsk  bárust böndin að Víkingaskipinu Drakar því að líkindin með strandaða skipinu og því voru mikil.

 

Fréttastofa náði tali af Kristni Gíslasyni, eiganda skipsins, Víkingaskipsins Drakar. Það hefur verið bundið við bryggju í Kópavogshöfn í 3-4 ár en virðist hafa losnað þaðan og rekið að landi við Eskines. 

Tengist ekki hrekkjavöku

Kristinn fékk svo fregnir af málinu á ellefta tímanum í morgun. Hann hafði þá ekki haft upplýsingar um að skipið hefði losnað frá bryggju. Hrekkjavakan er á sunnudag en Kristinn fullyrðir að skipið tengist henni ekki. 

Smíðað í Brasilíu

Kristinn segir að maður sem hafði brennandi áhuga á víkingaskipum hafi látið smíðað það á sínum tíma. Morgunblaðið greindi frá málinu í frétt frá 6. júlí 2015. Þar kemur fram að skipið var smíðað árið 2007 í Bras­il­íu eftir teikn­ingu sem hinn áhugasami maður um víkinga fékk frá norsku safni. Fyrirmyndin er sjálft Gaukstaðaskipið.