Nú hefur listahátíðin Sequences farið fram í tíunda sinn, en að henni standa Nýlistasafnið, Kling & Bang og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir myndlistargagnrýnandi Víðsjár kíkti á hátíðina.


Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Sequences hátíðin var stofnuð árið 2006 og var haldin árlega fram til 2009, þegar hún varð að þeim tvíæringi sem hún er í dag. Sequences sker sig úr innan um aðrar listahátíðir hér á landi fyrir þær sakir að hún er stofnuð af listamönnum og rekin af listamannareknum rýmum, og gerir þar að auki list sem unnin er í tímatengda miðla að brennidepli.

Í ár er sýningarstjórn í höndum þeirra Þórönnu Daggar Björnsdóttur og Þráins Hjálmarssonar, og hafa þau vandað vel til verka og sett saman afar fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá. Fjörutíu og þrír íslenskir og alþjóðlegir listamenn og listamannahópar taka þátt í hátíðinni, sem að mestu leyti fór fram í Reykjavík en teygði einnig anga sína víða um land, í listamannarekin rými eins og Gallerí Úthverfu á Ísafirði, Kaktus á Akureyri og menningar- og félagsheimilið Herðubreið á Seyðisfirði.

Konseptið „tími“ í einni eða annarri mynd hefur verið rauður þráður á hátíðinni gegnum árin. Enda hverfist hátíðin um listamenn sem vinna verk sín í tímatengda miðla eins og gjörninga, kvikmyndaformið eða vídeó, auk þess sem önnur listform eins og dans, ritlist og tónlist fá mikið pláss á hátíðinni í ár. Sum verkanna eru beinlínis háð tímanum, þau eru forgengileg og eingöngu til á tilteknum tíma sem áhorfendur virkja með nærveru sinni, en skilja eftir sig ummerki sem vara í mislangan tíma.

Yfirskriftin í ár er „Kominn tími til“ og vísar í það samfélagsrými augnabliksins sem hátíðin skapar sér hverju sinni. Það er að vísu freistandi að túlka titilinn með vísan í kórónuveirufaraldurinn og að nú sé loksins kominn tími til halda hátíð eftir svo langt hlé undanfarin misseri. Þannig mætti lesa titilinn sem vísan í eftirvæntingu eftir einhverju sem hefði löngu átt að hafa gerst, hvort sem það eru hátíðahöld eða jafnvel alvarlegri aðgerðir tengdar umhverfismálum, þótt það hafi sennilega ekki verið aðalásetningur sýningarstjóranna tveggja með yfirskriftinni.

Það sem hins vegar vekur sérstaka athygli í prógramminu í ár er vel útfærð sýn þeirra Þórönnu og Þráins um að skapa rými fyrir samslátt ólíkra listforma, en áberandi er endurtekinn samruni myndlistar, tónlistar og ljóðlistar. Ýmist í einu og sama verkinu eða með samtali ólíkra listamanna. Þannig virkjuðu til dæmis tónlistarhópar í fjölmörgum tilfellum myndverk með því að þýða hið sjónræna yfir í tóna, söng og hljóð, og þannig skapaðist áhugavert samtal þvert á listgreinar. Einnig eru algeng verk sem felast í beinum samskiptum listamannsins við tiltekið rými eða áhorfendur, eins og átta klukkustunda langur opnunargjörningur listamannahópsins Lucky Three í Open Galleríi, eða Tunglbókaútgáfa Elísabetar Jökulsdóttur og Dags Hjartarsonar úti í Gróttu á fullu tungli. Einnig vil ég nefna áberandi tengingu dagskrárinnar við börn og unglinga, hvort sem það er í formi samstarfs við skóla, beina þátttöku barna og unglinga í viðburðum, eða vinnusmiðjur fyrir ungt fólk. Þetta er vel gert og hefur ekki sést í svo miklum mæli áður á hátíðinni.

Heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár er rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir. Þetta er nokkuð óvænt val og hugrakkt, þar sem undanfarin ár hafa erlendar stórstjörnur úr myndlistarheiminum verið í heiðurlistamannahlutverkinu, eins og Carolee Schneemann og Joan Jonas. Það er engu að síður vel til fundið hjá sýningarstjórunum að bjóða Elísabetu til liðs við hátíðina því það ýtir undir markmið þeirra um að víkka út hefðbundin mörk listgreinanna og innlima orðlistina og skáldskapinn í mengi hátíðarinnar. Fingraför Elísabetar birtast á ýmsu formi í gegnum prógrammið, hvort sem það eru gjörningar, upplestrar, útilistaverk eða samsköpunarverk á myndlistarsýningu. Texti Elísabetar í sýningarskrá opnar upp áleitnar spurningar um hvað felst í hugtakinu „sköpun“ og hnýtir á gagnrýninn hátt í meðfarir samtímans á

hugtakinu sem útvötnuðu og ofnotuðu. Þá beinir Elísabet sjónum sínum að skuggahlið sköpunarinnar, eyðingunni eða óskapnaðinum sjálfum, og lýsir sambandinu þarna á milli á sinn fumlausa og hugvekjandi hátt.

Sköpun og eyðing eru einmitt efniviðurinn í sýningu með sömu yfirskrift sem fer fram í Nýlistasafninu og Kling & Bang, þar sem samsláttur hins sjónræna og hljóðræna kemur sérlega vel fram. Þar sýnir Guðlaug Mía Eyþórsdóttir myndverk og skúlptúra undirheitinu Tilbrigði, sem gerðir eru sem skor sem túlkað er í tónlist. Skólahljómsveitir og tónlistarhópar virkja rýmið á sýningartímanum og túlka skúlptúrana í tónlist og söng, og þannig á sér stað þýðing eða yfirfærsla frá einum listmiðli til annars. Samskonar yfirfærsla á sér stað í verki Gunnhildar Hauksdóttur, Skriðu, þar sem vísindaleg gögn frá Veðurstofu Íslands um jarðfræði Seyðisfjarðar eru þýdd yfir í efnislega innsetningu hennar í rýminu, sem aftur verður að skor fyrir tónlist í túlkun og flutningi kontrabassaleikarans Borgars Magnasonar. Verkið er átakanlegt þar sem það vísar í nýlega skriðuföll á Seyðisfirði en einnig ljóðrænt þar sem grjót úr skriðusárinu hafa verið lögð í hangandi satínborða úr loftinu sem rugga fram og til baka í takt við öldurnar í höfninni úti fyrir glugganum. Í verki Ástu Fanneyjar, Oasis of Endless Change, blandast saman í léttum leik leturform og geometrísk form í marglaga merkingum og endalausum samsetningum, verk sem Nýlókórinn virkjaði með flutningi á opnunardegi hátíðarinnar. Þá er verk Bergrúnar Snæbjörnsdóttur, Agape, afar áhrifaríkt, en í því tekst hún á við flóknar hugmyndir um samfall tíma og rúms með því að skapa samhliða frásagnir fjögurra hljóðfæraleikara. Hljóðfæraleikararnir túlka abstrakt textaskor hennar á fjögur hljóðfæri; hörpu, selló, kontrabassaklarínett og slagverk, í samspili við upptökuvél sem dregin er í kringum þau í stöðugri hringlaga hreyfingu. Hliðstæðir flutningar þeirra á skorinu eru svo felldir saman þannig að þeir eru upplifaðir samtímis í margföldum myndfleti undir nokkuð óhugnanlegum en mögnuðum hljóðheimi.

Þetta samtal hins sjónræna og hljóðræna birtist einnig í fleiri verkum á hátíðinni, eins og til dæmis í verki Berglindar Maríu Tómasdóttur, Rockriver Mary – Hjólhýsaverkefnið, þar sem hún fer í tónleikaferðalag í líki kúrekastelpu um Snæfellsnes og skoðar samband tónlistar og samfélags með því að bjóða tilfallandi vegasjoppugestum upp á þverflaututónleika í hjólhýsi, eða í verki Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur, Munnholu, sem röð gjörninga þar sem hún fálmar á súrrealískan og draumkenndan hátt eftir orðum, hlutum, formum, hljóðum í vel útfærðri fagurfræði.

Um leið og meirihluti listamannanna á hátíðinni er íslenskur að uppruna eða búsettur hér á landi, þá býður hátíðin einnig upp á alþjóðlega listamenn á heimsmælikvarða, hvers verk er afar dýrmætt að fá að líta augum. Hér má nefna verk kanadíska gjörningalistamannsins Miles Greenberg í Tjarnarbíó, Oysterknife frá 2020, 24 tíma kvikmyndaverk þar sem listamaðurinn sést ganga á færibandi samfellt í sólarhring eða verk bandarísku listakonunnar Meredith Monk í Bíó paradís, 16 Millimeter Earring frá árinu 1977, þar sem hún blandar saman danslist, raddlist, gjörningum, ljóðlist og kvikmyndalistinni í leit að nýju listformi. Sérstaklega gaman var að sjá Munnholu Ástu Fanneyjar eftir að hafa séð verk Monks, en greinilegur samsláttur er með verkunum tveimur þrátt fyrir langt kynslóðabil höfundanna á milli. Þá verður að nefna hér sérstaklega tónleika sem fóru fram í Hafnarborg, en þar flutti víóluleikarinn Julia Eckhardt verkið OCCAM IV eftir frönsku raftónlistarkonuna og brautryðjandann Éliane Radigue á afar eftirminnilegan hátt, og John McCowen flutti einleiksverk sitt Models of Duration fyrir kontrabassaklarínett, þar sem hann þenur út hljóðheim hljóðfæris síns á forvitnilegan og heillandi hátt. Bæði verkin fóru með áhorfendur í ferðalag hlustunarinnar um yfirborð hljóðanna, þar sem yfirtónar og hið undirliggjandi í eiginleikum hljóðfæranna opnuðu víddir út í hið stóra sem hið smáa.

Það verður ekki hægt að gera öllum þeim fjölda viðburða skil sem fóru fram á Sequences í þetta sinn, en hér hef ég einungis fjallað um brotabrot af því mikla magni áhugaverðra viðburða sem fóru fram á hátíðinni í ár. Það var sérlega ánægjulegt að upplifa lifandi list á ný og vera hluti af því samfélagsrými sem hátíðin skapar. Það var einmitt kominn tími til að halda hátíð, akkúrat svona hátíð sem sameinar ólíkar listgreinar og stefnir saman fólki úr ólíkum áttum í sameiginlega lifandi upplifun.