Christina Lamb, yfirmaður hjá Sunday Times sem hefur í áratugi flutt fréttir frá stríðssvæðum, segir það sárasta við að ræða við þolendur nauðgana í stríði vera að vita að frásagnir þeirra breyti líklega ekki neinu. Hún segir að skipulagt kynferðisofbeldi gegn konum hafi ávallt fylgt stríðsátökum en síðustu ár hafi það færst enn í aukana.

„Nauðganir hafa alltaf verið fylgifiskur stríðs. Fyrstu sagnfræðiskrif Heródótusar hefjast á brottnámi kvenna. En árið er 2021 og það er ekki í lagi að þetta tíðkist enn. Ég tel í raun að þetta sé faraldur um þessar mundir. Ég hef verið fréttaritari í 33 ár og undanfarin sex til sjö ár hef ég séð miklu meiri kynferðisleg grimmdarverk gegn konum en áður,“ segir Lamb.

Hún bendir á að á tuttugu árum hafi Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn aðeins sakfellt einn mann fyrir slík brot. „Enginn þarf að sæta ábyrgð. Málin sem ég nefndi, jasídarnir, Boko Haram og róhingjarnir; enginn hefur svarað til saka í þeim málum,“ segir Lamb.

„Alþjóðasamfélagið hefur sagt að þetta sé slæmt og að þetta sé stríðsglæpur. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með yfirlýsingu um að eitthvað þyrfti að gera í þessum málum en enginn setur það í forgang. Enginn gerir neitt í þessu,“ segir hún.

„Þetta finnst mér erfiðast; fólk kemur fram og segir þessar persónulegu og erfiðu sögur en svo gerist ekkert. Ekkert breytist,“ segir Lamb.