Birgir Þórarinsson, sem fór úr Miðflokknum og gekk í raðir Sjálfstæðismanna á dögunum, segir fjölmiðla hafa gengið langt í gagnrýni sinni um vistaskiptin. Birgir segir varaþingmanninn Ernu Bjarnadóttur hljóta að hafa skipt um skoðun með að fylgja honum vegna umræðunnar.

Erna greindi frá því í þættinum Bítinu á útvarpsstöðinni Bylgjunni í morgun að hún hyggist ekki fylgja Birgi og verða varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu.

Það merkir að þurfi Birgir að taka sér frí frá þingstörfum fjölgar í þingliði Miðflokksins í þrjá. 

„Hún tjáði mér það að hún ætlaði að koma með mér yfir. Hún hefur greinilega skipt um skoðun og ég held að það sé partur af þeirri hörðu umræðu sem hefur verið í samfélaginu og haft mikil áhrif á hana.“ sagði Birgir í samtali við Morgunútvarp Rásar tvö í morgun.

Birgir ítrekar að málið eigl rætur í Klausturmálinu, hann hafi gagnrýnt framgöngu félaga sinna og viðbrögð flokksins og sjálfur orðið fyrir þungu aðkasti vegna þess. Hann segist hafa verið reiðubúinn að yfirgefa flokkinn þá. 

„Ég er tekinn fyrir á þingflokksfundum. Það eru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir að hafa gagnrýnt þá.“ Hætt hafi verið við að halda þriðja fundinn af því tagi þegar Birgir hótaði brotthvarfi úr Miðflokknum. 

Andrúmsloftið hafi verið rafmagnað, sér hafi liðið illa og langan tíma hafi tekið að jafna sig. Þegar flokkurinn tók að þétta raðirnar fyrir kosningarnar hafi átt að koma í veg fyrir að hann yrði oddviti í Suðurkjördæmi.

Andstaða allt frá áramótum

Birgir segir allt frá áramótum, hafi verið barist gegn honum. Honum hafi sárnað það en að ekki hafi verið aftur snúið fimm dögum fyrir kosningar. Hann segir hafa verið veist að fólki í uppstillingarnefnd flokksins í kjördæminu.

„Formaður nefndarinnar var gerður ótrúverðugur og fólk varð fyrir aðkasti þegar búið var að velja mig á lista.“ Birgir segir vonbrigði að engin nýliðun varð í þingliði Miðflokksins eftir kosningar. Listinn hafi verið kærður og nýjar reglur settar. 

„Svo koma niðurstöður kosninganna. Það er bara afhroð, flokkurinn býður afhroð og ég sé fram á það að fara að vinna með tveimur mönnum. Annar þeirra hafði markvisst unnið gegn mér til að fá það í gegn að ég yrði ekki valinn oddviti. Hinn horfði á með fálæti, hann greip aldrei inn í þetta.“

Hefði kannski átt að bíða smá tíma 

Birgir svarar ekki beint aðspurður hvort niðurstaða hans hefði orðið önnur hefði Miðflokkurinn fengið betri kosningu eða ef Bergþór Ólason hefði ekki komist inn. 

„Það kemur ekkert nýtt fólk inn þannig að ég sá fram á það yrði engin breyting. Svona yrði þetta næstu fjögur árin og ég var ekki tilbúinn í það. Tímasetningin er náttúrulega mjög sérstök en er ekki heiðarlegra að gera þetta strax heldur en að gera þetta eftir tvo þrjá mánuði eða síðar? 

Ef ég lít í baksýnispegilinn hefði ég kannski átt að geyma þetta í einhvern tíma, ég skal bara viðurkenna það.“

Alrangt sé að hann hafi plottað vistaskiptin til Sjálfstæðisflokksins lengi, hann hafi talað við forvígismenn hans tveimur vikum eftir kosningar. Hann vill ekki fara nánar út í þá sálma, segist eingöngu hafa rætt við menn innan flokksins og flokkaskipti hafi verið niðurstaðan. 

Hann segist vita að margir hafi kosið sig persónulega. „Og við þá sem kusu Miðflokkinn vil ég segja að flokkurinn bauð þetta afhroð í kosningunum og mun ekki ná neinum málum fram.“ 

Fréttin var uppfærð klukkan 9:33.