Sóttvarnalæknir segir að sýna þurfti varkárni og hópsýking á Norðurlandi sé áminning um að faraldurinn sé ekki genginn niður. Hann vinnur að minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Hann vill ekki gefa upp um efni tillagnanna en vill fara gætilega. „Við verðum að fara mjög varlega í þetta og sennilega þurfum við að hafa einhverjar takmarkanir um sinn.“

Níutíu og tvö smit greindust innanlands um helgina. Í dag fengust upplýsingar um 31 smit hefði verið innanland og í gær var greint frá 61 smiti.

Flest smitin eru á Norðurlandi, einkum Akureyri. Þar eru rúmlega átta hundruð manns í sóttkví. Það hefur orðið til þess að margir starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru frá vinnu. Það hefur þurft að kalla út auka mannskap til að manna vaktir á sjúkrahúsinu. 

„Það er náttúrulega búið að grípa til mjög mikilla aðgerða, setja fólk í sóttkví. Það má alveg búast við því að það greinist fleiri á næstu dögum því að ég held að það sé nokkuð ljóst að þetta hefur náð að grafa um sig í samfélaginu þar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Það verði að koma í ljós hvort hópsýkingin teygi sig út fyrir landslhlutann. 

„Þetta er bara holl áminning um það að við þurfum að passa okkur áfram þó að takmarkanirnar séu ekkert voðalega miklar hér innanlands,“ segir Þórólfur.

Ennþá þurfi fólk að leggjast inn á sjúkrahús með veiruna.

„Það er ennþá fólk að leggjast inn og það er ennþá fólk að fara inn á gjörgæslu. Þannig að þetta er ekki búið mál,“ segir Þórólfur.

Reglugerð um sóttvarnaaðgerðir rennur úr gildi á miðvikudag. Þórólfur segir að það styttist í að hann skili heilbrigðisráðherra minnisblaði.

Sérðu fyrir þér rými til þess að aflétta frekar aðgerðum núna?

„Það verður að koma í ljós en ég hef alltaf sagt að við verðum að fara mjög varlega í þetta og sennilega þurfum við að hafa einhverjar takmarkanir um sinn,“ segir Þórólfur.

Þannig að það er afskaplega ólíklegt að öllu verði aflétt þá?

„Já, frá mínum bæjardyrum er það frekar ólíklegt já. Ég held að við eigum að fara okkur aðeins hægt áfram,“ segir Þórólfur.

Danir afléttu öllum takmörkunum tíunda september og Norðmenn fyrir rúmri viku. 

„Það gengur bara vel eins og staðan er núna t.d. í Danmörku en það eru ekki öll kurl komin til grafar ennþá held ég. Þetta getur tekið svolítinn tíma að koma í ljós en við þurfum að fara hægt yfir lækinn,“ segir Þórólfur.