Það kom helst á óvart að loftslagsmálin virtust ekki vera eins ráðandi í kosningunum í Noregi í gær og spáð hafði verið, að mati stjórnmálafræðings. Hægristjórn Ernu Solberg var hafnað og vinstriblokkin bar sigur úr býtum.
„Við höfum beðið, vonað og lagt hart að okkur. Og nú getum við loks sagt: Okkur tókst það,“ sagði Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, sigurreifur. Það var glatt á hjalla á kosningavöku Verkamannaflokksins í gærkvöld þegar niðurstaða kosninganna varð ljós. Þær voru um margt áhugaverðar.
Metfjöldi kvenna náði kjöri
Aldrei hafa fleiri konur náð kjöri, 79 talsins en 169 þingmenn sitja á Stórþinginu. Samsetning þeirra breytist nú umtalsvert. Allir flokkarnir í vinstriblokkinni bæta við sig, nema Verkamannaflokkurinn sem þó er langstærsti flokkurinn með 48 þingmenn. Hægriflokkurinn, flokkur Ernu Solberg, fráfarandi forsætisráðherra, tapar níu þingmönnum. Samtals bætir vinstriblokkin við sig 19 þingmönnum og hægriblokkin tapar 20.
„Það sem kom á óvart núna var það, það voru margir sem bjuggust við því að núna væri loksins komið að því að olíuþjóðin Noregur væri að fara að setja loftslagsmálin í forgrunn. Það gerðist eiginlega ekki þegar allt kom til alls,“ segir Herdís Sigurgrímsdóttir stjórnmálafræðingur sem er búsett í Noregi.
Fengu minna fylgi en þeim var spáð
Hún segir að umhverfisflokkarnir séu þrír þar en enginn þeirra hafi fengið jafn mikið fylgi og þeim hafði verið spáð. „Það eru Græningjarnir og það er Sósíalistaflokkurinn vinstrihreyfingin og svo er það Vinstriflokkurinn sem er ekki vinstri heldur er það miðjuflokkur.“ Miðflokkurinn bætir við sig flestum þingmönnum, sem Herdís segir að tengist stefnu í landsbyggðarmálum. „Og eftir átta ár með hægristjórn þá var búið að hagræða með hinu og þessu. Það var búið að fækka lögregluumdæmum og það var búið að fækka fæðingardeildum o.s.frv. Þannig að það búin að byggjast upp mikil gremja á landsbyggðinni sem kom Senterpartiet, Miðflokknum til góða.“
Jonas Gahr Støre reynir nú að mynda ríkisstjórn með Miðflokknum og Sósíalíska vinstriflokknum. „Þetta eru flokkar sem að sátu saman í stjórn undir Stoltenberg og það bara gekk bara mjög vel,“ segir Herdís sem telur þessa þriggja flokka stjórn langlíklegustu niðurstöðuna.
Tíðindin eru síðan fleiri, Íslendingar eiga nú fulltrúa á Stórþinginu. „Ég ólst upp í Noregi. En pabbi minn er frá Reykjavík og býr þar. Og ég held það hafi Íslendingur setið á Stórþinginu áður í Noregi,“ sagði Mímir Kristjánsson í samtali við fréttastofu fyrr í dag. Hann tekur sæti fyrir Rauða flokkinn í Stafangri. Það kjördæmi hefur verið heiðblátt í gegnum tíðina. Mímir brennur fyrrir velferðarmál og að hans mati hefur misskipting verið mikil í landinu sem er vellauðugt en ekki allir fá að njóta góðs af því.