Púlsavirkni eldgossins í Fagradalsfjalli jókst mjög í nótt. Nú gýs upp úr gígnum átta sinnum á klukkustund.

Eldgosið við Fagradalsfjall virðist hafa skipt um takt. Frá því seinni partinn í gær hefur púlsavirkni verið í gígnum og órói aukist. Þetta er svipuð hegðun og eldgosið sýndi í vor. „Púlsarnir byrjuðu í gær, um eftirmiðdaginn, um fjögur leytið og svo í nótt þá fara þeir að verða tíðari og núna í morgunsárið þá erum við að sjá púlsavirkni sem er mjög svipuð því sem var í apríl og maí. Við erum með sirka átta púlsa á klukkutíma,“ sagði Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í Morgunvaktinni á Rás eitt. „Það er búið að vera mjög mikil virkni núna í þessari nýjustu goshrinu,“ segir Kristín.

En hvað skýrir þessa púlsavirkni? Kristín segir þetta minna á virkni goshvera, eins og Strokks og Geysis. „Þessi púlsavirkni, hún virðist vera lík því sem gerist í goshverum, og hvað það er sem stjórnar þessari púlserandi virkni er í rauninni stærðin á þessum geymi sem er undir og hversu langan tíma tekur að fylla hann o.s.frv.“

Hraunið hleðst upp fremur en að breiða úr sér

Gígbarmurinn í Fagradalsfjalli nær nú 334 metra hæð yfir sjávarmáli. Samkvæmt nýjustu mælingum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands er hraunið 143 milljónir rúmmetrar og nær yfir 4,6 ferkílómetra. Flatarmálið hefur aukist sáralítið síðasta mánuðinn, þar sem hraunið nær ekki að renna út að jaðrinum fjærst gígnum. Í staðinn fyrir að breiða mikið úr sér hefur hraunið því hlaðið upp lítilli en tiltölulega brattri dyngju. 

Á tímabilinu 8. ágúst til 2. september komu 16 hrinur sem þar sem gaus af verulegum krafti en á milli lá gosið niðri. Á kyrru tímabilunum var gígurinn tómur og að minnsta kosti 70 metra djúpur. Eldgosið lét síðan ekkert á sér kræla í níu daga, frá 2. september til 11. september, sem er lengsta goshlé til þessa. 

Vísindamenn telja enga leið til að spá fyrir um goslok út frá hegðuninni hingað til. 

Land heldur áfram að rísa við Öskju

Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna landriss við Öskju í síðustu viku. Síðan hefur lítið frést af óróa þaðan. „Þetta landris heldur áfram og við erum að sjá smá skjálftavirkni með,“ segir Kristín.

„Þetta er auðvitað stórmerkilegt, af því að það sem við höfum verið að sjá frá því að mælingar hófust 1970, frá þeim tíma og alveg þangað til núna í ágúst þá hefur verið landsig sem hefur verið að jafnaði um fimm sentimetrar á ári, og svo núna bara frá því í byrjun ágúst þá eru komnir sex sentimetrar þar sem þetta bara rýkur upp.“