Ógerningur er að segja til um hvenær eldgosi ljúki á Reykjanesskaga. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Þá sé ekki hægt að ráða af mælingum á Reykjanesskaga hvort þar gjósi áfram eða hætti. Landris og kvikustreymi við Öskju gæti endað án þess að glóandi hraun komi upp á yfirborð. Páll segir að það gerist í helmingi tilfella.
Páll segir að þá sé hvort hægt að ráða af mælingum á Reykjanesskaga hvort þar gjósi áfram eða hætti.
„Það er nánast ógerningur að segja neitt til um það og ekkert, í raun og veru, sem við mælum sem bendir til þess að gosi sé að ljúka eða að það muni halda áfram. Það er ekkert sem getur sagt okkur til um það. Þessi uppkoma gossins aftur núna er góð lexía í því. Það er búið að vera goshlé í níu sólarhringa og margir hefðu látið sér það duga til að segja að nú væri gosi lokið. En það er ekki svo og það tók sig upp af sama krafti og verið hefur,“ segir Páll.
Páll segir að vísindamenn hafi lært gríðarlega margt af gosinu á Reykjanesskaga. Menn sitji núna sveittir við greinarskrif um allt það sem gosið hafi kennt þeim.
Gosið á ólíklegasta stað á Reykjanesskaga
„Þetta er fyrsta gosið sem við sjáum á þessari grein flekaskilanna á Reykjanesi. Út af fyrir sig er það verðmætt. En það sem er líka við þetta gos er að þetta er á ólíklegasta stað á öllum Reykjanesskaganum fyrir gos. Fyrir ári síðan hefðum við sennilega aldrei giskað á að þetta yrði næsti gosstaður. Þetta er milli virkustu eldstöðvakerfanna á svæðinu. Milli annars vegar Reykjaness og Svartsengis og hins vegar Krýsuvíkur. Þau kerfi eru miklu virkari þegar til langs tíma er litið. Þetta kennir okkur að ólíklegir atburðir gerast annað slagið,“ segir Páll.
En Reykjanesskaginn er ekki eina svæðið á Íslandi þar sem virkni er í jörðu því land hefur risið í Öskju.
Stóra skriða 2014 gæti verið merki um virkni
„Það er kvikustreymi upp í jarðskorpuna inni í miðri Öskjunni inni í Dyngjufjöllum. Þetta eru fyrstu vísbendingar öruggar um hreyfingar inni í miðri Öskjunni. Það hafa verið hreyfingar annars staðar. Allir muna kannski eftir stóru skriðunni sem féll sumarið 2014 ofan í Öskjuvatn. Hún gæti verið merki um vaxandi virkni í Öskju. En það sem við sjáum núna er að miðjan á stóru öskjunni í Dyngjufjöllum, hún rís núna. Hún rís ekkert rosalega hratt en greinilega og mælanlega. Þannig að það er merki sem við hljótum að þurfa að taka alvarlega,“ segir Páll.
Hann segir að mjög mismunandi tímaskali sé á svona atburðum. Í Kröflu hafi liðið vikur eða mánuðir þannig að kvika streymdi upp og þandi upp miðju eldstöðvarinnar. Síðan kom gos eða kvikuhlaup. Í Eyjafjallajökli hafi verið ristímabil í 15 ár áður en kvika kom upp.
Ekki hægt að segja til um hvort glóandi hraun komi upp í Öskju
Finnst þér líklegt að það fari að koma kvika upp á yfirborðið þarna í Öskju á næstu dögum?
„Ég treysti mér ekki til þess að setja neinar tölur á það. En það sem við erum að sjá í mælingum er dæmigerður fyrirrennari þess. Það er vissulega ein af þeim sviðsmyndum sem við verðum að reikna með að geti orðið ofan á. Við þekkjum líka tilfelli þar sem svona ristímabil hafa endað án þess að gos verði,“ segir Páll.
Í Kröflueldum hafi kvika komið upp á yfirborð í um helmingi tilfella. Á 20 ristímabilum hafi komið níu eldgos.