Hannes Þór Halldórsson greindi frá því í viðtali eftir leik að leikur Íslands við Þýskaland í kvöld hafi verið síðasti landsleikur Hannesar með Íslandi. Þýskaland vann leikinn 4-0.

„Við gáfum allt í þetta og mér fannst leiðinlegt að fá á mig fjögur mörk. En við reyndum. Þeir eru bara miklu betri en við og erfitt að eiga við þá. Við áttum svosem fína spretti, skot í stöng og fleira,“ sagði Hannes meðal annars eftir tapið í kvöld.

Rúnar Alex Rúnarsson spilaði síðustu þrjá leiki Íslands í undankeppninni fyrir HM 2022, en Hannes kom hins vegar aftur inn í markið fyrir leikinn við Þýskaland í kvöld og spilaði um leið sinn síðasta landsleik. „Ég bjóst nú kannski endilega við að spila fleiri leiki. En ég var klár í þennan slag og reiknaði alveg eins með því að spila þennan leik og ekki,“ sagði Hannes.

„Margar af mínum bestu minningum“

Alls spilaði Hannes 77 landsleiki fyrir Ísland er leikjahæsti markvörður íslenska landsliðsins frá upphafi. „Ég er búinn að spila fyrir landsliðið í tíu ár núna, nánast upp á dag. Ég er mjög stoltur af því og hef átt ótrúlegar stundir í þessari landsliðstreyju, margar af mínum bestu minningum. En það er komið að kynslóðaskiptum og við eigum fullt af frábærum markmönnum, þannig mér finnst réttur tímapunktur fyrir mig að stíga til hliðar núna og leyfa þeim að taka við keflinu án þess að ég sé að anda ofan í hálsmálið á þeim. Þannig ég var að spila minn síðasta landsleik í kvöld og þakka kærlega fyrir mig,“ sagði Hannes við RÚV.

En hvenær ákvað Hannes að hann ætlaði að hætta með landsliðinu á þessum tímapunkti? „Þetta er búið að vera að gerjast í svolítinn tíma. Ég er mjög sáttur með allt sem við höfum gert með þennan feril. Ég er sáttur í eigin skinni. Það er ekkert eftir. Ég hélt að þetta væri komið hjá mér eftir Wembley [þegar Þjóðadeildinni lauk haustið 2020 skömmu eftir að ljóst varð að Ísland kæmist ekki á EM í sumar]. En svo ákváðum við að taka slaginn í þessari keppni. En mér líður bara núna þannig að þetta sé komið. Ég held ég verði bara að elta þá tilfinningu, þannig mér þykir það vera það rétta í stöðunni.“

Var ekki búinn að láta þjálfarana vita

Vissu Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari og Eiður Smári Guðjohnsen af ákvörðun Hannesar fyrir leikinn í kvöld? „Nei, reyndar ekki. Ég á eftir að fara og pikka í Adda núna,“ sagði Hannes eftir leikinn í kvöld.

Nánar er rætt við Hannes í viðtali sem Edda Sif Pálsdóttir tók við hann fyrir RÚV eftir leikinn við Þýskaland á Laugardalsvelli í kvöld. Viðtalið má horfa á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.