Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð, telur að einn helsti vandi Landspítalans felist í því að hann sé á föstum fjárlögum en ekki fjármagnaður eftir afköstum. Hann telur að það væri til bóta að spítalinn hefði sérstaka stjórn, og að hún væri eins konar millistig milli pólitíkusa og stjórnenda spítalans.

Björn var gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi í kvöld.

Hann telur að ekki hafi náðst að þróa íslenska heilbrigðiskerfið sem skyldi á síðustu árum, og að samvinnu skorti milli einstakra hluta þess. Vandi bráðamóttöku Landspítalans er, að Björns mati, að mörgu leyti sá sami og á öðrum spítölum á Norðurlöndunum; flöskuháls myndast við það að þegar búið er að greina sjúklinga vantar pláss fyrir þá á deildum. 

Björn segir aðdáunarvert hvernig Íslandi hefur tekist á við kórónuveirufaraldurinn, en telur viðbrögðin hafa orðið óskýrari á síðustu mánuðum. Að einhverju leyti hafi Íslendingar tekið „bæði belti og axlabönd á suma hlutina“ sem kunni að hafa reynst vel. Hann spáir því að heilbrigðiskerfið verði í 6-9 mánuði að ná sér eftir faraldurinn.